Rúmlega fjögur þúsund undirskriftir hafa safnast á lista þeirra sem fordæma ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi matvælaráðherra, að gefa út hvalveiðileyfi á sínum síðustu dögum í starfsstjórn.
„Við fordæmum harðlega ákvörðun fráfarandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar að gefa út nýtt hvalveiðileyfi á sínum síðustu dögum í tímabundinni starfsstjórn,“ segir í tilkynningu undirskriftalistans á island.is. „Okkur þykir það svívirðileg valdníðsla fallinnar ríkisstjórnar.“
Listinn var settur á laggirnar þann 5. desember og gildir til 5. mars næstkomandi. Þegar þetta er skrifað hafa 4101 skrifað undir listann.
„Staðfest er að hvalveiðar fara gegn lögum um velferð dýra og brýnt er að hvalveiðibann verði samþykkt á Alþingi hið fyrsta,“ segir í tilkynningunni með listanum, sem Valgerður Árnadóttir talskona samtakanna Hvalavina, kom á fót. „Við hvetjum nýja ríkisstjórn til að afturkalla þessa leyfisveitingu sem fráfarandi forsætisráðherra hafði ekki umboð til að veita þar sem tímabundinni starfsstjórn er ekki ætlað að taka stórar stefnumótandi ákvarðanir.“
Ný ríkisstjórn hyggst endurskoða lög um hvalveiðar á kjörtímabilinu.
Hægt er að skrifa undir listann hér.