Skemmtilegt atvik kom upp á fyrsta blaðamannafundi Freys Alexanderssonar hjá norska stórliðinu Brann.
Freyr var formlega kynntur til leiks hjá Brann í gær, en liðið hefur hafnað í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö tímabil.
Það var farið um víðan völl á blaðamannafundinum í gær og til að mynda var athygli Freys vakin á færslu sem Birkir Már Sævarsson setti inn. Birkir spilaði með Brann í sex ár.
„Ég óska Brann til hamingju með þennan frábæra gaur,“ sagði Birkir á Instagram í gær eftir ráðningu Freys og birti skemmtilega mynd.
Freyr brást skemmtilega við þessu. „Þetta er klikkað! Við vorum mikið saman í háskóla. En burt með þessa mynd!“ sagði hann og hló.