TT-fréttastofan segir að í ræðu sinni hafi hann meðal annars rætt um blendingsstríð Rússa. Í þessu samhengi ræddi hann um hvernig Rússar reyna að hafa áhrif á skoðanamyndun fólks með dreifingu lyga og rangra upplýsinga. Hann ræddi einnig um förufólk sem er sent yfir landamærin til Finnlands og Póllands.
Nýlegt slit á sæstrengjum í Eystrasalti bar einnig á góma í ræðu hans en hann vildi ekki benda á ákveðið land sem bæri ábyrgð á skemmdarverkunum. „Svíþjóð dregur ekki ótímabærar ályktanir og sakar engan um skemmdarverk án sönnunargagna,“ sagði Kristersson og bætti við: „En við erum heldur ekki barnaleg. Staða öryggismála og sú staðreynd að undarlegir hlutir eiga sér stað hvað eftir annað í Eystrasalti, gera að verkum að ekki er hægt að útiloka að um fjandsamlegar aðgerðir sé að ræða.“