fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar

Eyjan
Sunnudaginn 12. janúar 2025 15:30

Olíumálverk frá því um þarsíðustu aldamót sem sýnir Djöflahöllina eða Teufelsschloss í Frans Jósefs-firði á Austur-Grænlandi. Þýskir landkönnuðir gáfu fjallinu nafn í leiðangri 1869–1870.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held því fram, að til sé bæði sögulegur og eðlilegur yfirráðaréttur Íslendinga yfir Grænlandi,“ mælti Pétur Ottesen þingmaður Sjálfstæðisflokks á fundi í sameinuðu Alþingi sumarið 1931. Hann átti oft eftir að tala fyrir tilkalli Íslendinga til réttinda á Grænlandi og vannst til þess nægur tími því hann sat á þingi lengur en nokkur annar, en Pétur var kjördæmakjörinn þingmaður Borgfirðinga í samfellt 42 ár og 250 daga, frá 1916 til 1959. Í rökstuðningi með tillögum Péturs var ymprað á margvíslegum notum sem Íslendingar gætu haft af Grænlandi, ekki einasta sjávarafla því þar væri líka að finna verðmæta málma í jörðu og mikinn og góðan útigang fyrir sauðfé, en sjálfur var Pétur bóndi. Á Grænlandi væru margháttuð „framtíðarskilyrði fyrir hrausta og harðfenga menn,“ eins og hann orðaði það eitt sinn.

Íslenskt tilkall til Grænlands

Álitsgjafar hafa keppst við að fordæma ummæli verðandi Bandaríkjaforseta varðandi kaup á Grænlandi og fundist þau fjarstæðukennd en bresk-þýski blaðamaðurinn Alan Posener fjallar um málið í pistli í Welt í gær og segir ummæli Donalds Trumps um Grænland og Panama ekkert annað en enduróm af þeirri stefnu sem stjórnvöld í Washington hafa fylgt allt frá því að James Monroe forseti gaf út hina frægu yfirlýsingu sína árið 1823. Hún gengur út á að Bandaríkjamenn sætti sig ekki við afskipti utanaðkomandi ríkja af málefnum Ameríku. Á grundvelli þessa hefðu bandarísk stjórnvöld keypt Alaska af Rússum 1867, hrundið yfirráðum Spánverja á Kúbu 1898 og tekið að sér hervernd Grænlands 1941 (og Íslands um leið).

Posener segir það þversögn að Trump sé sakaður um heimsvaldastefnu þegar yfirráð Dana á Grænlandi séu beinlínis leifar heimsvaldastefnu (þ. ein Relikt des Imperialismus). Á árum áður andæfðu Íslendingar gjarnan dönskum yfirráðum á Grænlandi og voru margir sama sinnis og Pétur Ottesen; að Íslendingar ættu beinlínis tilkall til Grænlands. Helsti fræðimaður á þessu sviði var Jón Dúason sem lokið hafði prófi í hagfræði frá Hafnarháskóla 1919. Hann fékkst í upphafi við viðskipti en þegar leið á þriðja áratuginn helgaði hann sig alfarið rannsóknum á sögu Grænlands.

Ytri aðstæður kunna þar að hafa orðið Jóni Dúasyni hvatning. Um miðbik þriðja áratugarins, jókst áhugi hérlendra manna á Grænlandi fyrir þá sök að Færeyingum hafði verið veitt heimild til fiskveiða þar í kjölfar aflabrests við eyjarnar. Íslenskir útgerðarmenn veltu því eðlilega fyrir sér hvort og þá hvernig mætti tryggja Íslendingum sambærilegan rétt við Grænland. Árið 1925 lögðu alþingismennirnir Magnús Jónsson, Tryggvi Þórhallsson og Benedikt Sveinsson (langafi Bjarna sem nýverið lét af embætti forsætisráðherra) fram tillögu um skipan nefndar sem falið yrði að kanna réttarstöðu Grænlands gagnvart Íslandi. Benedikt mælti fyrir tillögunni og sagði Grænland til forna hafa verið íslenska nýlendu, sem síðan hefði eyðst og týnst. Tillagan fékk mikinn byr á þinginu og var samþykkt. Skipuð var nefnd í kjölfarið, sem virðist ekki hafa orðið sérlega starfsöm.

Úr varð að Jón Dúason ritaði doktorsritgerð sem hann fékk varða við Óslóarháskóla 1928 en hún hafði yfirskriftina „Grönlands statsretlige stilling í middelalderen“. Athyglisvert er að niðurstöður ritgerðarinnar gengu í berhögg við þær kröfur sem margir norskir stjórnmálamenn höfðu þá uppi til Grænlands, en árið 1931 varð þjóðréttarleg staða Grænlands mjög í brennidepli er Norðmenn námu land á Austur-Grænlandi. Deilu Dana og Norðmanna um þetta efni var skotið til fasta alþjóðadómstólsins í Haag sem dæmdi landnám Norðmanna ólögmætt.

Röksemdir Jóns Dúasonar voru einkum og sér í lagi þær að lög þjóðveldisins þekkja ekki Grænland sem sérstakt þjóðfélag heldur sé það í „vorum lögum“ eins og það var kallað. Þá lagði Jón áherslu á að Íslendingar hefðu aldrei afsalað sér Grænlandi, það hafi einfaldlega fylgt með þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd. Sú ályktun Jóns og fleiri verða að teljast hæpnar í meira lagi.

Við stofnun Sameinuðu þjóðanna var komið á fót verndargæslunefnd og Dönum gert að skila nefndinni skýrslu um stjórnun sína á Grænlandi. Dönskum stjórnvöldum féll það illa og var kveðið á um það í nýrri stjórnarskrá Dana árið 1953 að Grænland skyldi innlimað í danska konungsríkið. Við þessa nýju skipan vöknuðu Grænlandsmálin til lífsins á ný á Íslandi. Þingmenn kröfðust þess að því yrði mótmælt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að Dönum væri heimilt að hætta skýrslugerðinni og þess freistað að ná ítökum til handa Íslendingum á Grænlandi. Í kjölfarið flutti Pétur Ottesen enn eina tillöguna um tilkall Íslendinga til réttinda á Grænlandi en fljótlega lognaðist umræðan út af.

Óþrjótandi tækifæri

Svo ég víki aftur að grein Posener sem birtist í Welt í gær þá gerir hann auðlindarnar að umtalsefni. Á Grænlandi megi finna 43 af þeim 50 jarðefnum sem talin eru nauðsynleg iðnaði framtíðarinnar. Þar á meðal auðugustu námur svokallaðra „sjaldgæfra jarðmálma“ (þ. seltene Erden) utan landamæra Kínverska alþýðulýðveldisins, en með hugtakinu „sjaldgæfur jarðmálmur“ er átt við sautján frumefni: skandín, yttrín og fimmtán lantaníða. Að auki sé að finna á Grænlandi 13 prósent ónýttra olíulinda heimsins og nærri þriðjung gasforðans.

Stjórnvöld í Peking vinna um þessar mundir að lagningu „heimskautasilkileiðar“ (þ. Polar-Seiden-Straße) í samvinnu við Rússa sem halda úti aragrúa herstöðva á heimskautasvæðum. Mjög stór hluti hinna vestrænu heimskautasvæða er innan lögsögu Grænlands og Posener veltir því upp í grein sinni hvort siglingaleiðir og leiðir til lagningar sæstrengja innan lögsögu Grænalands kunni jafnvel að vega jafnvel þyngra en auðlindir landsins. En hvernig sem á það er litið er Grænland land tækifæranna. Þangað er enn að sækja mikil verðmæti, líkt og var forðum daga þegar forfeður okkar leituðu þangað eftir ýmsum dýrustu munaðarvörum miðalda; rostungstönnum, hvítabjörnum, fálkum og náhvalstönnum.

Við blasir að íslensk stjórnvöld, jafnt ríki sem borg, verða á komandi misserum og árum að leggja mikla áherslu á samskiptin við Grænlendinga sem munu sjálfir taka ákvarðanir um eigin örlög — en hvorki stjórnvöld í Washington eða Kaupmannahöfn. Reykjavík er eina borgin á mjög stóru svæði á Norður-Atlantshafi þar sem allur infrastrúktúr er til staðar sem og margháttuð þekking. Einmitt þess vegna eru miklir möguleikar fólgnir í hvers kyns samvinnu við granna okkar í vestri sem búa í landi tækifæranna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
15.12.2024

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum