Rakel Garðarsdóttir er framleiðandi og frumkvöðull, þekkt fyrir störf sín í leikhús- og kvikmyndageiranum. Hún hefur starfað sem framleiðandi hjá leikhópnum Vesturport frá árinu 2003. Auk þess er Rakel stofnandi og framkvæmdastjóri samtakanna Vakandi, sem berjast gegn matarsóun og stuðla að aukinni vitund um umhverfismál. Rakel er einn tveggja framleiðanda leiknu sjónvarpsþáttanna Vigdís sem núna eru sýndir á RÚV. Það má segja að þættirnir hafi sameinað þjóðina við sjónvarpið aftur rétt eins og þjóðin gerði yfir Dallas og Hemma Gunn þegar frú Vigdís var forseti. Rakel er gestur Einars Bárðarsonar í nýjum þætti af Einmitt.
„Vigdís var sameiningartákn þjóðarinnar og hún er eiginlega að ná því aftur núna með þessum þáttum,” segir Rakel. „Í frétt á Vísi.is í síðustu viku var þetta kallað Vígdísar æði,” bætir hún við. Fyrstu þættirnir sem komnir eru í loftið hafa verið fólki innblástur fyrir miklar vangaveltur fyrstu ára Vígdísar. Áranna áður en hún tók þá ákvörðun að bjóða sig fram í embætti forseta. Líflegar umræður hafa skapast en það er morgunljóst að þjóðin er klárlega komin með annan umgang af Vígdísar æði sem er hreinlega gott og jafnvel gagnlegt. Þar sem það er gott að þekkja söguna til að vita hvernig við komumst á þann stað sem við erum á í dag með kvenleiðtoga nánást í öllum valdamestu embættum landsins.
Framleiðendurnir af Vigdísi tóku þá listrænu ákvörðun að taka allar útlandatökurnar á Íslandi. Það er að segja Svíþjóð og Frakkland er sett á svið hérna heima. Að taka þann hluta sögunnar erlendis hefði verið alltof dýrt fyrir framleiðsluna.
„Það skiptir í sjálfu sér engu máli því þetta er ekki saga Frakkklands eða Svíþjóðar. Þetta er saga konu, þetta er um Vigdísi,” segir Rakel. „Einhverjir hafa verið að gera athugasemdir við þetta á samfélagsmiðlum,” segir Rakel og bætir við:
„Þegar við erum að vera útsjónarsöm í framleiðslu hérna heima þá framkallar það einhvern pirring en þegar Hollywood kemur til Íslands og breytir Dalvík í þorp í Alaska þá er þetta brjálæðislega sniðug lausn hjá útlendingunum.”
Að framleiða þætti um líf og störf jafn fyrirferðarmikillar persónu kallar væntanlega á mikið traust á báða bága.
„Vigdís er með bakgrunn úr listunum. Vann í Þjóðleikhúsinu og stýrði Leikfélagi Reykjavíkur þannig að hún gerir sér grein fyrir mikilvægi listræns frelsis,” segir Rakel. „En um leið og Vígdís horfir í augun á mér og segir: „Ég treysti þér fyrir þessu”, þá ferðu mjög varlega með það traust,” bætir Rakel við.
En saga Vigdísar forseta er ekki bara saga konunnar Vigdísar. Rakel kemur inn á það sem greinarhöfundar kalla Vigdísar áhrifin þar sem sókn í frekari vitneskju um þetta tímabil, sérstaklega samferðafólks Vigdísar á tímunum áður en hún varð forseti er skyndilega orðin mjög mikil. Þannig sé verið að leita heimilda á Google og fleiri stöðum um persónur sem koma við sögu í fyrstu þáttunum.
„Þetta er ekki bara um Vígdísi, þetta er um konur þessarar kynslóðar, ömmur okkar, um samferðafólkið okkar. Þvi Vigdís ruddi ekki brautina ein,” segir Rakel. „Þetta er um það fólk sem bjó til það Ísland og þá Reykjavík sem við búum við í dag. Sem er frekar frábær.“
Samtal þeirra Einars og Rakelar fer einnig inn á mikilvægi þess að þekkja söguna þegar verið er að takast á um áherslur samtímans. Þannig sé Verbúðin góður söguspegill inn í umræðu samtímans á Vestfjörðum sem dæmi. Það sama megi segja um Laugaveginn. Til þess að geta rifist yfir því hvort það séu of margar lundabúðir þarf fólk helst að muna að fyrir ekki meira en 15 árum var annað hvort verslunarrými á Laugaveginum tómt.
„Þegar að annað hvort pláss var laust á Laugaveginum þá var enginn Íslendingur niðri í bæ. „Nú er allavega stútfullt af ferðamönnum og líf og fjör þannig að barir og veitingastaðir standa opnir og við getum notið líka.”
Þáttaröðin um Vígdísi er núna á leiðinni á allar ríkisstöðvar Norðurlandanna og það er mikill akkur fyrir framleiðsluna. „En svo er bara mikill áhugi um allan heim sem er ekki sjálfgefið því við erum lítil þjóð og þetta er á íslensku og þannig alls ekki sjálfgefið,” segir Rakel. „En um leið mögnuð saga.”
Þá bætir Rakel því við að áhugi væri kominn frá Bandaríkjunum og Rakel sagði að það væri bæði gaman og til gagns að sem flestir Bandaríkjamenn sæju sögu Vigdísar. Þá er undirbúningur á Verbúðinni 2 hafinn og mikið í pípunum hjá Rakel og fólkinu í Vesturporti.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.