fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Pressan

Ung kona í blóma lífsins ætlaði að tilkynna kærastanum að hún væri ólétt – Hann átti sér þó leyndarmál og það sást aldrei til hennar aftur

Pressan
Laugardaginn 11. janúar 2025 22:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir tæplega 20 árum keyrði hin 19 ára gamla Jessica O’Grady af stað til fundar við samstarfsfélaga. Þau störfuðu saman á veitingastað og voru að stinga saman nefjum. Hin unga Jessica ætlaði að segja Christopher Edwars að hún bæri barn hans undir belti.

Hún sendi vinkonu sinni skilaboð og sagði: Ekkert flipp í kvöld, en það þýddi að hún ætlaði ekki að hafa samfarir þetta kvöldið. Þetta var það seinasta sem heyrðist frá Jessicu. Fjölskylda hennar hafði samband við lögreglu morguninn eftir þegar hún skilaði sér ekki í vinnuna, sem var ólíkt henni.

Nokkrum dögum eftir hvarfið fannst bifreið hennar nærri verslunarmiðstöð. Bíllinn var læstur og engin merki um að átök hefðu átt sér stað. Lögregla fór í kjölfarið heim til kærastans, Christophers. Hann samþykkti leit í herbergi sínu.

Reyndi að fela blóðið

Lögregla fann þar vísbendingar um að glæpur hefði átt sér stað. Það voru blóðblettir á rúmgafli, dýnu, sæng sem og á húsgögnum, veggjum, lofti og þvottakörfu. Einhver hafði lagt mikið á sig til að þrífa blóðið upp með því að mála yfir það og með því að snúa dýnunni við.

Bíll Christophers stóð inni í bílskúr og þar fann lögregla skítuga skóflu og blóðugar garðklippur. Sömuleiðis fannst blóð í farangursrými bifreiðarinnar. Loks fann lögregla ruslapoka sem innihélt blóðug handklæði.

Rannsókn á sýnum leiddi í ljós að blóðið var úr Jessicu og miðað við magnið þótti ólíkt að hún væri enn á lífi. Christopher var því handtekinn og ákærður fyrir morð. Hann hefur þó alltaf neitað sök.

Rannsóknarlögregla rakti fyrir dómi að líklega hafi Christopher banað Jessicu með sverði sem hann átti. Hann hafi líkast til orðið reiður þegar hún tilkynnti honum um óléttuna þar sem hann var með aðra konu í takinu sem sömuleiðis var þunguð.

Lögregla bauð Christopher að játa sök gegn vægari refsingu svo lengi sem hann sýndi hvar hann hefði grafið Jessicu. Christopher hafnaði boðinu. Kviðdómi þótti þó haft yfir skynsamlegan vafa að hann væri sekur. Hann var því sakfelldur og dæmdur í 100 ára fangelsi.

Christopher hefur allar götur síðan reynt að hreinsa nafn sitt en ekki borið erindi sem erfiði. Meðal annars sótti hann um áfrýjun á þeim grundvelli að einn lögreglumannanna sem rannsakaði morðið varð í öðru máli uppvís að því að falsa sönnunargögn. Ekkert bendir þó til þess að hann hafi gert slíkt í máli Jessicu.

Hafa enn ekki gefist upp

Lögreglan hefur enn ekki gefist upp á því að finna líkamsleifarnar. „Þó að málið sé upplýst þá erum við enn að leita að líkamsleifum Jessicua O’Grady,“ segir fógetinn í Douglas, Aaron Hanson, í samtali við People á dögunum. „Við erum vongóð um að fá áfram ábendingar frá almenningi um þær upplýsingar sem fólk býr yfir sem gæti gert fjölskyldunni kleift að loka þessum kafla og endurheimta líkamsleifar Jessicu.“

Rannsóknarlögreglumaðurinn Eric Nordby sagði í viðtali árið 2019 að skömmu eftir að Jessica hvarf var Christopher boðaður til skýrslutöku. Þar kom hann vel fyrir svo lögregla taldi í fyrstu að hann hefði ekkert með hverfið að gera. Það runnu þó tvær grímur á Nordby þegar Christopher fór skyndilega að víkja sér undan spurningum.

„Hann hélt því fram að hann og O’Grady hefðu ekki ætlað að hittast kvöldið 10. maí. Hann sagði hana ekki hafa komið heim til sín. Þann 11. maí sendi hann henni skilaboð til að spyrjast fyrir um það hvers vegna hún kom ekki.“

Þetta var ekki í samræmi við gögnin sem lögregla hafði undir höndum. Þar sást að Jessica hringdi í Christopher kvöldið 10. maí, og hann hafði aldrei sent henni skilaboð, ólíkt því sem hann hélt fram í skýrslutöku.

Fógetinn segir að rannsóknarlögreglumenn gruni hvar Jessicu er að finna en það sé erfitt að hafa uppi á henni án þess að vita nákvæmlega hvar. Aðstæður séu erfiðar á svæðinu en vonandi muni tækniframfarir gera lögreglu kleift að skanna svæðið á næstu misserum.

Þó að næstum 20 ár séu liðin síðan Christopher var sakfelldur neitar hann enn öllu samstarfi við lögreglu. Fjölskylda Jessicu er sannfærð um að hann hafi treyst einhverjum nákomnum fyrir því hvar Jessicu er að finna og vona þau að þessir aðilar sjái að sér og leyfi fjölskyldunni að finna frið.

„Það er hægt að láta einhvern, nafnlaust, vita hvar líkamsleifar hennar er að finna. Það er réttlátt. Hún á það skilið svo mikið, hún á ekkert annað skilið,“ sagði frænka Jessicu við fjölmiðla árið 2016.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Þessi mynd varð stórtækum fíkniefnasmyglurum að falli

Þessi mynd varð stórtækum fíkniefnasmyglurum að falli
Pressan
Fyrir 2 dögum

Skyndilega farin að fylgja Trump á miðlum Meta og geta ekki hætt því – „Þetta er bara fasísk áróðursmaskína á fullri ferð“

Skyndilega farin að fylgja Trump á miðlum Meta og geta ekki hætt því – „Þetta er bara fasísk áróðursmaskína á fullri ferð“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem skýldi Trump eftir að hann var skotinn fær veglega stöðuhækkun

Maðurinn sem skýldi Trump eftir að hann var skotinn fær veglega stöðuhækkun
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fá 170 milljónir í bætur – Læknar skildu blæðandi konu eftir og fóru á barinn

Fá 170 milljónir í bætur – Læknar skildu blæðandi konu eftir og fóru á barinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Játar að hafa myrt þrjú börn í enskum dansskóla

Játar að hafa myrt þrjú börn í enskum dansskóla
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Læknar gerðu skelfilega uppgötvun þegar 8 ára stúlka var lögð inn á sjúkrahús með COVID-19

Læknar gerðu skelfilega uppgötvun þegar 8 ára stúlka var lögð inn á sjúkrahús með COVID-19
Pressan
Fyrir 4 dögum

Notuðu Snapchat til að skipuleggja hrottalega árás

Notuðu Snapchat til að skipuleggja hrottalega árás
Pressan
Fyrir 4 dögum

Trump lét Pútín finna fyrir því: „Hann getur ekki verið ánægður“

Trump lét Pútín finna fyrir því: „Hann getur ekki verið ánægður“