Lögreglan í Los Angeles hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa lagt eld að gróðri nærri heimili stórstjarna í borginni. Eins og varla hefur farið framhjá neinum hafa miklir skógareldar geisað við borgina síðustu daga sem hafa eyðilagt þúsundir heimila og kostað á annan tug manna lífið.
Ekki liggur fyrir hver uppruni skógareldanna er. Algengasta orsökin er yfirleitt þegar eldingum slær niður en það er útilokað í þessu tilviki. Aðrir möguleikar eru íkveikja eða þá að neisti frá biluðum rafmagngslínum hafi tendrað bál. Fyrsti möguleikinn hefur verið sleginn út af borðinu í ljósi þess að ekkert var um eldingar á svæðinu þegar skógareldarnir kviknuðu en aðrir möguleikar eru til rannsóknar.
Borið hefur á orðrómi um að brennuvargar hafi gert illt verra með því að kveikja elda víðar um borgina. Þeir orðrómar virðast á rökum reistir eftir handtökuna í morgun. Um var að ræða heimilislausan mann á fertugsaldri sem var með gasbrennara meðferðis en árvökulir íbúar höfðu hendur í hári hans.
Tíðindin hafa vakið mikla reiði ytra og hafa ýmsar stjórstjörnur keppst við að fordæma hið meinta níðingsverk.
„Þið helsjúku andskotar. Hvað í fjandanum er að fólki?? Íkveikja?? Megir þú vera sakfelldur af fullum þunga, þvílíkt ógeð!!“ skrifaði til að mynda Khloe Kardashian.