Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri úttekt í nýjasta tölublaði Heimildarinnar.
Umrætt verkefni, hið svokallaða Coda Terminal-verkefni, hefur reynst mjög umdeilt en fram hefur komið að umrædd niðurdæling, meðal annars á snefilefnum af blásýru og öðrum efnum, mun eiga sér stað í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð frá heimilum fólks og vatnsverndarsvæðum. Eru íbúar á Völlunum sérstaklega margir uggandi yfir málinu sem þeir hafa sagt vera risastórt tilraunaverkefni nálægt mannabyggð.
Í umfjöllun Heimildarinnar kemur fram að viljayfirlýsing liggi meðal annars fyrir um viðskipti við fyrirtæki sem dæmt hefur verið fyrir glæpi gegn mannkyni.
Í umfjölluninni kemur fram að fyrirtækið neiti því að ætla að dæla meira niður en áréttar að ef áhugi væri á slíku í framtíðinni fæli það í sér nýtt verkefni sem lagt yrði fyrir í nýju umhverfismati. Vísað er í viðskiptaáætlun fyrirtækisins þar sem fram kemur að sótt verði um auknar heimildir til niðurdælingar á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Bent er á það í Heimildinni að þær áætlanir sem kynntar hafa verið fyrir íbúum gangi út á að flytja inn og dæla niður þremur milljónum tonna af koldíoxíði, en í viðskiptaáætlun fyrirtækisins komi fram að sækja eigi um annað umhverfismat á næsta ári sem myndi fela í sér niðurdælingu á mun meira magni en það.
Heimildin ræðir meðal annars við Valdimar Víðisson, nýjan bæjarstjóra í Hafnarfirði, sem staðfestir að í kynningum á fundum með íbúum og bæjarfulltrúum Hafnarfjarðar hafi aldrei verið minnst á þessi markmið.
Ítarlega er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Heimildarinnar.