Kína er meðal þeirra ríkja sem lengst eru komin í þróun gervigreindar og nú hefur Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, gefið ríkisstjórn sinni og Sberbank, sem er stærsti banki landsins, fyrirmæli um að vinna að þróun gervigreindar í samvinnu við Kínverja. Sberbank er í fararbroddi í vinnu Rússa við þróun gervigreindar.
Reuters segir að Pútín hafi sagt að bankinn og ríkisstjórnin eigi að „tryggja aukna samvinnu við Kína um rannsóknir á sviði tækni og þróunar gervigreindar“.
Rússar virðast eiga í vandræðum með að halda í við þau ríki sem eru leiðandi í notkun og þróun gervigreindar en auk Kína eru það Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Singapúr.
German Gref, fyrrum efnahagsráðherra Rússlands og núverandi bankastjóri Sberbank, sagði 2023 að Rússar ættu í erfiðleikum með að finna eitthvað sem gæti komið í stað GPU-örflögunnar sem er notuð við þróun gervigreindar.
Reuters segir að ástæðan fyrir þessu, sé refsiaðgerðir Vesturlanda gagnvart Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Refsiaðgerðunum er ætlað að koma í veg fyrir að Rússar komist yfir tæknibúnað sem er hægt að nota í stríðinu.
Stærstu framleiðendur örflaga hafa hætt sölu til Rússlands og það hefur komið mjög illa niður á þróun gervigreindar í landinu.