Mikið hefur borið á umræðu um skjáfíkn undanfarin ár með sífellt aukinni skjánotkun jafnt ungra sem aldinna. Sum vilja þó meina að skjáfíkn sé ekki raunverulegur sjúkdómur, samkvæmt fræðilegri skilgreiningu þess orðs. Ein þeirra er Ásdís Bergþórsdóttir sálfræðingur sem vísar meðal annars í skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og segir raunar að allt tal um skjáfíkn líkist meira trúarbrögðum en vísindum.
Ásdís fjallar um skjáfíkn í grein á Vísi. Hún segir flesta Íslendinga telja að skjáfíkn sé alvarlegur fíknisjúkdómur sem skapist af því að í hvert sinn sem við fáum verðlaun verði aukin dópamínframleiðsla í heila.
Hún vill þó meina að það standist ekki fræðilegar forsendur að tala um skjáfíkn sem alvöru sjúkdóm. Það liggi ekki fyrir hvað þessi meinti sjúkdómur heiti á ensku og því sé erfitt að leita að upplýsingum um hann. Það liggi ekki heldur fyrir hvaða skilgreiningar fólk þurfi að uppfylla til að vera greint með skjáfíkn sem sé nauðsynlegt ef hún eigi að vera formlega skilgreind sem sjúkdómur út frá vísindalegum forsendum.
Ásdís minnir einnig á að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi ekki samþykkt skjáfíkn sem fíknisjúkdóm. Hún vísar einnig fullyrðingum um að greiningarkerfi stofunarinnar sé úrelt á bug og segir kerfið vel geta tekið við nýjum fíknigreiningum.
Ásdís tekur heldur ekki undir það að síendurtekin vellíðan eftir ákveðið athæfi valdi í öllum tilfellum fíkn í þetta athæfi:
„Ég verð að spyrja í sakleysi mínu sem einhleyp kona til langs tíma: Ef fólk fær oft fullnægingu í kynlífi verður það sjálfkrafa kynlífsfíklar? Erum við þá með svona svakalega mikið af kynlífsfíklum eða er kynlíf fólks bara almennt lélegt? Ég spyr einnig út frá lýðheilsusjónarmiðum: Þarf þá að vara fólk við samböndum þar sem fullnæging er algeng til koma í veg fyrir að fólk verði kynlífsfíklar?“
Ásdís vísar í vísindarannsóknir sem gefa til kynna að dópamín orsaki ekki vellíðan. Rannsóknirnar bendi þó til að framleiðsla á dópamíni aukist ef fólk eigi mögulega von á verðlaunum en þá standist það ekki að fólk sé haldið skjáfíkn af því það auki dópamínframleiðslu í heilanum:
„Sjónvarpsáhorf felur ekki í sér óviss verðlaun (ef sjónvarpsþáttur er á dagskrá þá er hann á dagskrá – engin óvissa þar) en áhorf á sjónvarp á samkvæmt skjáfíknisinnum að geta verið hluti af skjáfíkn.“
Ásdís vitnar í orð yfirlæknis barna- og unglingageðdeikdar Landspítalans í Læknablaðinu sem hafi sagt að 7,5 prósent fullorðinna á heimsvísu séu haldnir fíkn í samfélagsmiðla. Hún segir að þessar tölur séu ansi háar og það sé þá skrýtið að fullorðnu fólki með slíka fíkn sé leyft að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn því skjáfíklar hljóti þá að vera í þeim hópi. Það verði þá að grípa til aðgerða gagnvart skjáfíklum sem séu í störfum sem snúi að öryggi fólks:
„Það er ekki nóg að leggja samfélagsmiðla og síma frá sér í vinnunni því þá koma væntanlega fráhvörf til sögunnar. Svo er það heilbrigð skynsemi að veikt fólk á helst ekki að vinna ef veikindin skerða á einhvern hátt dómgreind sem þarf að nota í starfi. Ef það er í góðu lagi að virkir skjá- og samfélagsmiðlafíklar vinni í heilbrigðisgeiranum annað hvort í fíkn eða fráhvörfum eða bæði, hvernig er hægt að telja þessa meintu fíknisjúkdóma alvarlega fíknisjúkdóm.“
Ásdís segir að lokum að það standist því ekki vísindalega skoðun að kalla skjáfíkn raunverulegan fíknisjúkdóm:
„Ekki ætla ég að gagnrýna trúarhreyfingar. Vísindaleg aðferð byggir hins vegar á því að geta svarað spurningum og reyna að leita svara við spurningum. Ef eitthvað stemmir ekki við kenningar eða tilgátur þá þarf einfaldlega að finna skýringar á því án þess að móðgast … Kallaðu ekki ofnotkun fíkn og talaðu ekki um börn sem fíkla nema þau raunverulega séu það. Fíknisjúkdómar eru ekki létt kvef heldur lífshættulegir sjúkdómar með háa dánartíðni. Við getum ofnotað allt en fæst okkar missa vinnu, fjölskyldu og lífið út af ofnotkun einhvers. Gerum ekki lítið úr alvarleika viðurkenndra fíknisjúkdóma!“
Grein Ásdísar í heild sinni er hægt að lesa hér.