fbpx
Fimmtudagur 09.janúar 2025
433Sport

Friðrik Dór kemur föður sínum til varnar – „Ef hann er í skuld einhvers staðar þá er það allavega ekki uppá Krika“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 8. janúar 2025 16:25

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson kveðst stoltur af föður sínum Jóni Rúnari Halldórssyni, en hann setti inn færslu á Facebook í kjölfar þess að faðir hans gaf frá sér yfirlýsingu vegna Skessu-málsins fyrr í dag.

Yfirlýsinguna birti Jón Rúnar vegna fjölmiðlaumfjöllunnar fyrir áramót um byggingu knatthússins Skessunnar. Telur hann þar illa að sér vegið.

Í fyrra fékk Hafnarfjarðarbær Deloitte til að skoða bókhald aðalstjórnar FH vegna kostnaðar við byggingu á Skessunni og misræmis í ársreikningum félagsins. Tengist það viðræðum um kaup bæjarins á knatthúsinu.

Mörgum var brugðið er skýrsla Deloitte lá fyrir, einkum vegna þess að Jón Rúnar og bróðir hans, Viðar Halldórsson, virtust samkvæmt henni hafa hagnast vel á framkvæmdunum. Svo segir Jón Rúnar alls ekki vera.

Meira
Jón Rúnar þvertekur fyrir ásakanir og harmar fréttaflutning – „Því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum“

Friðrik Dór stakk svo niður penna í kjölfar yfirlýsingar föður síns í dag.

„Stoltur af pabba og öllu sem hann hefur áorkað fyrir félagið okkar. Ef hann er í skuld einhvers staðar þá er það allavega ekki uppá Krika, það er morgunljóst. Verð að segja líka hvað það hefur verið dýrmætt að finna hvað hinn almenni FH-ingur hefur stutt okkur í þessum skrýtna stormi,“ segir þar.

Yfirlýsingin Jóns Rúnars

Í desember síðastliðnum hófu fjölmiðlar umfjöllun um byggingarkostnað Skessunnar sem byggði öll á skýrslu Deloitte ehf. sem unnin var fyrir Hafnarfjarðarbæ vegna fyrirhugaðra kaupa bæjarins á mannvirkinu.

Inn í þá umfjöllun drógust nafn mitt og fyrirtæki mitt Best-hús ehf. og hamrað á því að fyrirtækið hefði fengið greiddar 350 milljónir króna frá FH, og látið að því liggja að ekki væru haldbærar skýringar á þessum greiðslum.  Þá er blandað inn í umfjöllunina endurgreiðslum FH á vaxta- og verðbótalausum lánum Best-húsa ehf. til FH sem ekki koma byggingu Skessunnar við á nokkurn hátt.

Í raun sökuðu fjölmiðlar mig og fyrirtæki mitt ranglega um að hafa með ólögmætum eða í það minnsta ósiðlegum hætti makað krókinn á viðskiptum við FH vegna byggingar Skessunnar.

Enginn fjölmiðlanna gaf því hins vegar gaum að í skýrslu Deloitte ehf. er þess sérstaklega getið að vinna og verklag við gerð hennar hafi ekki falið í sér staðfestingarvinnu né geti að nokkru leyti talist grundvöllur endurskoðunar eða áreiðanleikakönnunar. Þá tók Deloitte ehf. fram að félagið gæti ekki staðfest nákvæmni upplýsinga eða hvort upplýsingar og gögn sem Deloitte ehf. hafði aflað væru rétt eða fullnægjandi, þar sem ekki var leitað sérstaklega eftir því. Einnig að þarna séu ábendingar, án þess að hægt sé að draga ályktanir af þeim.

Rétt er að taka fram að Deloitte ehf. hafði aldrei samband við mig til að fá gögn eða skýringar á greiðslum FH til Best-húsa ehf. Hefðu starfsmenn Deloitte ehf. aflað gagna frá Best-húsum ehf. hefðu þeir séð og getað staðreynt að hvorki ég persónulega né Best-hús ehf. höfum haft nokkurn hagnað af byggingu Skessunnar.

Allir þeir fjármunir sem FH greiddi til Best-húsa ehf. runnu til framleiðanda og seljanda burðarvirkis og ytra byrðis Skessunnar. Sá kostnaður, að viðbættum kostnaði við flutning vörunnar til landsins, var grundvöllur virðisaukaskatts sem greiddur var við innflutning auk annarra gjalda vegna tollafgreiðslu.

Rétt er að taka fram að öllum hlutaðeigandi, þ.e. aðalstjórn FH, forráðamönnum Hafnarfjarðarbæjar sem og Deloitte hefur verið gerð grein fyrir því hvernig greiðslum þessum var háttað.

Einnig hefur umfjöllunin verið á þann veg að það sé eitthvað óeðlilegt jafnvel ósiðlegt við að fyrirtæki mitt hafi verið milligönguaðili í þessum kaupum.

Á það skal bent að árið 2018 bauð Hafnarfjarðarbær út byggingu á knatthúsi fyrir FH í Kaplakrika. Í verkið buðu þrír aðilar og voru allir, þar á meðal lægstbjóðandi, með tilboð frá Best-húsum ehf. í burðargrind og ytra byrði hússins sem og hönnun þess.

Eins og fram hefur komið í fréttum hætti Hafnarfjarðarbær við útboðið og hafnaði öllum tilboðum. Þegar Hafnarfjarðarbær og FH gerðu með sér samkomulag um að FH myndi byggja húsið lá beinast við að nota sömu lausn og hönnun sem lá til grundvallar þeim tilboðum sem borist höfðu, enda um hagkvæma lausn að ræða.

Aðdragandi þessa máls er sá í upphafi árs 2023 óskaði FH eftir því við bæinn að hann tæki á leigu eða keypti knatthúsið Skessuna, sem félagið hafði reist og tekið í notkun haustið 2019.  Var það gert á grundvelli opinberrar stefnu Hafnarfjarðarbæjar um að eiga og reka öll íþróttamannvirki í Hafnarfirði.

Hafnarfjarðarbær réð Deloitte ehf. til þess að verðmeta Skessuna. Deloitte ehf. skilaði verðmatsskýrslu í  apríl 2024. Samkvæmt henni taldi Deloitte ehf. verðmæti Skessunnar vera á bilinu 1,5 til liðlega 2 milljarðar króna. Hafnarfjarðarbær réð Deloitte ehf. síðan aftur til að vinna nýja skýrslu um byggingar- og rekstrarkostnað Skessunnar. Sú skýrsla lá fyrir í júlí 2024. Þegar síðari skýrslan lá fyrir, með öllum ofangreindum fyrirvörum, töldu einhverjir sér hag í því að leka henni til valinna fjölmiðla, sem aftur leiddi til þess að Hafnarfjarðarbær lét öllum fjölmiðlum hana í té með þeim afleiðingum sem að ofan greinir.

Ég er og hef allt tíð verið FH-ingur, ber hag félagsins ávallt fyrir brjósti og því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum í fjölmiðlum hvað mál þetta varðar.

Jón Rúnar Halldórsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Staðfesta ráðninguna á Potter

Staðfesta ráðninguna á Potter
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Sannkölluð veisla í Kórnum á sunnudag til styrktar Tómasi Frey – Stórstjörnur bregða á leik

Sannkölluð veisla í Kórnum á sunnudag til styrktar Tómasi Frey – Stórstjörnur bregða á leik
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Umboðsmaður Rashford fundaði með tveimur félögum í gær

Umboðsmaður Rashford fundaði með tveimur félögum í gær
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Kluivert ráðinn í áhugavert starf

Kluivert ráðinn í áhugavert starf
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Arsenal reynir að fá hann næsta sumar

Arsenal reynir að fá hann næsta sumar
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Gefast upp á stórstjörnu sinni og vilja Salah í staðinn

Gefast upp á stórstjörnu sinni og vilja Salah í staðinn
433Sport
Í gær

Jón Rúnar þvertekur fyrir ásakanir og harmar fréttaflutning – „Því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum“

Jón Rúnar þvertekur fyrir ásakanir og harmar fréttaflutning – „Því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum“
433Sport
Í gær

Ronaldo gæti tekið umdeilt skref – Myndi mæta Real Madrid og hugsanlega Messi

Ronaldo gæti tekið umdeilt skref – Myndi mæta Real Madrid og hugsanlega Messi