„Hann er mjög öflugur og óútreiknanlegur og ég get vel hugsað mér að sjá þennan ófyrirsjáanleika Trump gilda fyrir Rússland. Ég held að hann vilji gjarnan binda enda á stríðið,“ sagði Zelenskyy í viðtalinu.
Trump, sem tekur við forsetaembættinu þann 20. janúar, hefur sagt að hann vilji binda enda á stríðið í Úkraínu en það hefur staðið yfir í tæp þrjú ár. Trump hefur gengið svo langt að segja að hann muni binda enda á stríðið á „24 klukkustundum“ þegar hann tekur við völdum.
„Það verður að koma á vopnahléi samstundis og samningaviðræður eiga að hefjast,“ skrifaði Trump á Truth Social í desember.
Þessi ummæli Trump hafa vakið upp efasemdir og áhyggjur í Úkraínu. Óttast Úkraínumenn að þeir verði að láta land af hendi í staðinn fyrir frið.
Zelenskyy hefur reynt að byggja brú til Trump og verðandi stjórnar hans en hann og aðrir Úkraínumenn óttast að Trump og Repúblikanar muni skera mikið niður í hinum mikla hernaðarstuðningi sem Bandaríkin veita Úkraínu eða muni í versta falli hætta algjörlega að styðja varnarbaráttu Úkraínumanna.