Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að til að af sjálfstæði geti orðið, þá þurfi danska þingið að samþykkja það og þar er staðan sú að ekki eru allir flokkarnir tilbúnir til að styðja slíkt frumvarp.
Mikkel Bjørn, þingmaður danska þjóðarflokksins, sagði að með umræðu um hvort leyfa eigi 50.000 manns, sem búa í nokkrum bæjum, að fá sjálfstæði og þar með taka rúmlega tveggja milljón ferkílómetra svæði út úr danska ríkjasambandinu, sé hætta á að áhrifum Dana á alþjóðavettvangi verði kastað á glæ. Bjørn sagði umræðuna um sjálfstæði Grænlands vera „mistök“ og „ótímabæra“. Þegar hann var spurður hvort ekki eigi að virða vilja Grænlendinga, þá svaraði hann að ef Grænlendingar vilji meiri sjálfsákvörðunarrétt varðandi mál bæjarfélaga í landinu, þá styðji Danski þjóðarflokkurinn það. Flokkurinn telji hins vegar ekki að Grænlendingar hafi rétt til að ákveða að þeir yfirgefi ríkjasambandið og taki allt þetta stóra land með sér úr því. „Það er Danmörk sem fer með fullveldi stærsta hluta Grænlands. Á þeim grunni teljum við að það svæði sé hluti af dönsku yfirráðasvæði, hluti af danska ríkinu, og við teljum að þannig eigi þetta að vera áfram,“ sagði hann.
Helle Bonnesen, talskona Konservative í utanríkismálum, sagði í skriflegu svari til B.T. að þingflokkurinn muni ekki styðja frumvarp um sjálfstæði Grænlands. Flokkurinn telji að ekki eigi að hrófla við ríkjasambandinu. Flokkurinn virði það að á Grænlandi séu uppi raddir og óskir um að landið fá eigin stjórnarskrá en flokkurinn telji um leið mjög mikilvægt að sú stjórnarskrá rúmist innan ramma danska ríkjasambandsins.
Samkvæmt reglum þá þurfa Grænlendingar að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við Danmörku. Fyrst verður grænlenska þingið að samþykkja að Grænland lýsi yfir sjálfstæði. Frumvarpið þarf síðan að hljóta samþykki meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef grænlenska þjóðin samþykkir það, þá kemur til kasta danska þingsins að samþykkja sjálfstæðið.