Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Mennirnir eru sakaðir um að hafa í félagi um nokkurt skeið fram til 2. október 2024 geymt tæplega 3 kg af MDMA kristöllum og tæplega 1.800 MDMA töflur í skrifstofuhúsnæði að Bæjarlind 2 í Kópavogi. Efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Miðvikudagskvöldið 2. október 2024 komu hinir ákærðu í húsnæðið til að sækja efnin en lögreglan hafði áður skipt kristöllunum út fyrir gerviefni.
Hinir ákærðu eru tvíburabræðurnir Elías og Jónas Shamsudin en þeir eru þrítugir að aldri, og Samúel Jói Björgvinsson, sem er 26 ára.
Samúel Jói er að auki ákærður fyrir að hafa haft töluvert magn af alls konar fíkniefnum í fórum sínum sem fundust við húsleit lögreglu að dvalarstað hans við Smyrilshlíð. Var þar um að ræða m.a. kókaín, metamfetamín í kristöllum og MDMA töflur.
Í þriðja lið ákærunnar er Jónas Shamsudin síðan ákærður fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot en hann hafði í vörslu sinni 4,6 grömm af kókaíni, tvö stunguvopn, hnúajárn og felukylfu. Fannst þetta á heimili Jónasar.
Einn sakborninganna, Elías Shamsudin, er margdæmdur brotamaður. Lögregla hefur lengi fylgst með honum en það kom fram í frétt Stöðvar 2 og Vísis árið 2022 að lögregla hefði hlerað síma hans um 100 sinnum. Hins vegar láku úrskurðir um heimildir til hlerunar á síma hans til hans og vissi því Elías af því að verið væri að hlera hann.
Elías hefur brotasögu allt frá 15 ára aldri, fyrir þjófnað, fjárdrátt, hraðakstur, fjársvik, eignaspjöll, líkamsárás og fíkniefnabrot, meðal annars fíkniefnainnflutning.
Málið gegn þremenningunum verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur miðvikudaginn 8. janúar.