fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Bauð í fíkniefnapartý en svo kom mamma heim

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. janúar 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórir karlmenn hafa verið sakfelldir fyrir ofbeldisbrot í Héraðsdómi Reykjavíkur. Voru mennirnir ákærðir fyrir að ráðast á karlmann og konu á heimili þeirrar síðarnefndu. Höfðu mennirnir mætt á heimilið í kjölfar þess að dóttir konunnar hafði boðið þeim þangað ásamt fleirum til að neyta fíkniefna. Þegar móðir hennar kom á staðinn ásamt karlmanninum fór hins vegar allt úr böndunum.

Mennirnir fjórir voru ákærðir fyrir að hafa í samvinnu ráðist á karlmanninn með ítrekuðum hnefahöggum og spörkum víðs vegar um líkamann og stappað á öxl hans og veist að móðurinni með ofbeldi og slegið hana í höfuð og maga. Samkvæmt ákærunni voru afleiðingarnar þær að karlmaðurinn hlaut viðbeinsbrot, eymsli við aftanvert vinstra eyra, mar á vinstri hendi, eymsli í lendhrygg og yfir hægri mjöðm og tognun á hálshrygg en móðirin hlaut kúlu á höfði, mar á maga og ótilgreindan bakverk.

Einn hinna ákærðu var sömuleiðis ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa í vörslu sinni hnúajárn.

Atvikið átti sér stað 2022 en fram kemur í dómnum að karlmaðurinn sem ráðist var á er unnusti móðurinnar.

Dóttirin bauð

Móðirin og unnustinn voru flutt á bráðamóttöku og ræddu þau þar við lögregluna. Sögðust þau hafa komið á heimili móðurinnar en þar hafi dóttir hennar verið með vinkonu sinni og fimm karlmönnum sem þau þekktu ekki til. Sögðu þau að allur hópurinn hefði verið undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Hefðu þau vísað karlmönnunum öllum út en fjórir þeirra í kjölfarið ráðist á þau, veitt þeim báðum högg og þar að auki sparkað í unnustann og einn þeirra stappað á öxl hans.

Dóttirin komst í mikið uppnám. Sagði hún aðeins hafa boðið tveimur mannanna á heimilið en hinir tveir mætt óboðnir og neitað að fara og hafi þar að auki rifið kjaft. Vildi hún meina að mennirnir tveir sem hún bauð hafi ekki gert neitt af sér heldur hafi hinir tveir sem mættu óboðnir ráðist á móður hennar og unnustann.

Vitnað er í dómnum í læknisvottorð þar sem áverkum unnustans er lýst með ítarlegum hætti en þeir alvarlegustu voru mikil eymsli, aflögun og blæðing undir húð yfir vinstra viðbeini. Röntgenmynd og slæmt viðbeinsbrot.

Unnustanum var vísað til meðferðar hjá bæklunarlækni og einnig sótti hann áfallameðferð. Móðirin sótti einnig áfallameðferð en hún var samkvæmt vottorði með verki víða um líkamann og marblett sem var um 6 sentímetrar að flatarmáli.

Var veikgeðja

Mennirnir fjórir mættu allir fyrir dóm.

Einn þeirra játaði að hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar atvikið átti sér stað. Hann sagðist ekki muna vel eftir því en neitaði þó að hafa beitt nokkurn mann ofbeldi.

Annar neitaði að tjá sig en sagðist þó hafa verið veikgeðja á þessum tíma en síðan þá unnið í sínum málum og að persónulegir hagir hans hefðu breyst verulega til hins betra.

Sá þriðji sagðist hafa mætt á heimili mæðgnanna til að neyta fíkniefna en myndi lítið eftir atvikum. Hann væri nú orðinn edrú.

Sá fjórði viðurkenndi einnig neyslu fíkniefna. Hann myndi lítið eftir atvikum en neitaði að hafa ráðist á brotaþolana og fullyrti þvert á á móti að hann hefði reynt að stöðva ofbeldið.

Fyrir dómi lýstu móðirin og unnustinn atvikum með mjög ítarlegum hætti. Sögðu þau hafa blasað við þegar þau komu á heimilið að verið væri að neyta fíkniefna. Þegar þau hafi reynt að vísa mönnunum út hafi þeir veist að þeim með fúkyrðum og síðan ofbeldi. Sögðust þau enn glíma við sálfræðilegar afleiðingar ofbeldisins og sagðist unnustinn enn finna til í öxlinni sem einn mannanna hefði stappað á með þeim afleiðingum að viðbeinið brotnaði.

Frítt dóp

Dóttirin kom fyrir dóm og sagðist þá hafa boðið þremur mannanna á heimilið en ekki aðeins tveimur eins og hún sagði við lögregluna þegar hún var kölluð til. Sagði hún að á staðnum hefði verið frítt dóp og hefði hún viljað losna við mennina þegar óþægileg stemmning hefði myndast en þeir ekki viljað fara. Þegar móðir hennar hefði komið heim ásamt unnustanum hafi þau bæði reynt að vísa mönnunum út sem hafi brugðist við með fúkyrðum og í kjölfarið ofbeldi. Tveir mannanna hafi síðar beðið hana fyrirgefningar og hafi hún fyrst viljað vernda þá, með því að neita því að þeir hefðu beitt ofbeldi, en síðan séð að sér. Sagðist dóttirin aðeins hafa séð hluta atburðarásarinnar.

Önnur vitni sem komu fyrir dóminn gátu veitt takmarkaðar upplýsingar um málsatvik en staðfestu að mennirnir hefðu ráðist að brotaþolunum.

Í niðurstöðu Héraðsdóms segir að óumdeilt sé að til átaka hafi komið eftir að brotaþolarnir reyndu að vísa mönnunum fjórum á dyr. Framburður unnustans og móðurinnar sé trúverðugur og málsgögn og framburður vitna renni frekari stoðum undir það. Dómurinn segir það draga úr trúverðugleika skýrslu dótturinnar hjá lögreglu að móðirin hafi verið viðstödd þrátt fyrir að hafa verið brotaþoli. Framburður dótturinnar fyrir dómi hafi hins vegar verið trúverðugur. Dómurinn segir skýringar hennar á að framburður hennar fyrir dómi hafi ekki veri’ í fullu samræmi við framburð hennar hjá lögreglu hafa verið trúverðugar.

Sekir og saklausir

Það er því niðurstaða dómsins að mennirnir fjórir hafi í sameiningu ráðist á unnustann.

Aðeins einn mannanna var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa slegið móðurina í höfuðið þar sem ekki þótti ljóst af framburði hennar hvaða þátt hinir mennirnir höfðu átt í því. Mennirnir voru einnig sýknaðir af því að hafa slegið móðurina í magann þar sem hún gat ekki tilgreint nákvæmlega hver þeirra hefði orsakað þá áverka sem hún hlaut á þeim hluta líkamans.

Í kjölfar játningar hans var sá mannanna sem einnig var ákærður fyrir vopnalagabrot sakfelldur fyrir þann þátt málsins.

Dráttur málsins

Refsing mannanna er misjöfn.

Vegna þess dráttar sem varð á málinu, ungs aldurs og þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot var ákvörðun um refsingu eins mannsins frestað og mun hún falla niður haldi hann skilorð í tvö ár.

Það sama gildir um þann næsta og var þá einnig vísað til þess að hann hefði lokið fíkniefnameðferð.

Þriðji maðurinn hefur áður gerst sekur um brot á hegningarlögum en hann hlýtur fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna þess dráttar sem orðið hefur á málinu.

Þegar kemur að refsingu fjórða mannsins, þess sem stappaði á öxl unnustans með þeim afleiðingum að viðbeinið brotnaði, segir í dómnum að hann hafi í Landsrétti árið 2024 hlotið 12 ára fangelsisdóm vegna annars máls. Vísað er í ákvæði hegningarlaga þar sem segir að verði maður uppvís að því að hafa framið önnur brot áður en hann sé dæmdur skuli viðkomandi hljóta hegningarauka sem samsvari þyngingu refsingar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu. Það er mat dómsins að refsing mannsins hefði ekki orðið þyngri hefði þessu máli verið bætt við fyrra málið og því sé honum ekki gerð refsing í þessu tilfelli.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir
Fréttir
Í gær

Hvað eiga Danir að gera við yfirgangi Trumps? – „Grænland er orðið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna“

Hvað eiga Danir að gera við yfirgangi Trumps? – „Grænland er orðið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna“
Fréttir
Í gær

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
Fréttir
Í gær

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“