Hinn reyndi fjölmiðlamaður Gunnar Smári Egilsson vekur athygli á þessu í færslu í Facebook-hópi Sósíalistaflokksins.
Í færslu sinni segir Gunnar Smári að Morgunblaðið reyni að stjórna Íslandi með þögninni eins og það gerði áratugum saman.
„En blaðið hefur ekkert dagskrárvald lengur, getur ekki tekið mál af dagskrá með því að minnast ekki á þau. Leiðari blaðsins í dag er tilvitnun í rant Guðna Ágústssonar um veðraskipti en þar er ekki minnst á afsögn Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins af þingi, það sem allt annað fólk en ritstjóri Moggans telur tilefni til vangaveltna, yfirlits og greiningar,“ segir Gunnar Smári og tekur Illugi Jökulsson, þjóðfélagsrýnir og fjölmiðlamaður, undir þetta.
„Ef Morgunblaðið skipti einhverju máli lengur sem pólitísk rödd þá hefði maður nú líklega hent í einn pistil af Kremlarlógíu við þau tíðindi að í leiðara blaðsins sé ekki minnst á afsögn formanns Sjálfstæðisflokksins. Í rauninni er þetta móðgun við Sjálfstæðisflokkinn en meikar bara engan diff,“ segir hann.