Sorg ríkir í þýska knattspyrnuheiminum eftir andlát hins 22 ára gamla Luca Meixner yfir hátíðarnar.
Félag hans, fimmtu deildarlið SSV Reutlingen, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Meixner hafði leikið fyrir félagið allt sitt líf.
„Um síðustu helgi fengum við þau skelfilegu tíðindi að leikmaður okkar, Luca Meixner, hefði látist föstudaginn 27. desember. Öll SSV-fjölskyldan er í sárum vegna þessa.
Liðsfélagar hans og allir hjá félaginu syrgja Luca og hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu félagsins.
Meixner kom upp í gegnum unglingastarf SSV en lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið 2021.