Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, ætlar að stíga til hliðar sem formaður Frjálslynda flokksins í Kanada. Hann mun þó áfram sitja sem forsætisráðherra þar til nýr leiðtogi hefur verið valinn, en þá mun hann segja af sér embætti. Hann segist ekki treysta sér til að leiða flokk sinn í gegnum komandi kosningar og af innri átökum.
Trudeau, sem hefur setið í embætti frá 2015, tilkynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi fyrir utan heimili sitt. Búið er að fresta þingi í Kanda þar til 24. mars. Þessi tilkynning kom fáum á óvart enda hefur Trudeau verið harðlega gagnrýndur undanfarið og flokkur hans logað í illdeilum. Fyrir örfáum vikum sagði fjármálaráðherra hans af sér embætti og í kjölfarið mældist stuðningur við Trudeau aðeins 19 prósent meðal Kanadabúa og flokkur hans með aðeins 16 prósenta fylgi.
Kjósendur í Kanada hafa sérstaklega gagnrýnt húsnæðisverð sem hefur hækkað mikið undanfarin ár, samhliða skuldum heimilanna. Atvinnuleysi hefur aukist, verðbólga verið töluverð og framleiðni minnkað. Fjármálaráðherrann, Chrystia Freeland, sagði af sér embætti út af viðbrögðum Trudeau við hótunum Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, um að leggja verndartolla á innflutning frá Kanada. Chrystia vildi bregðast við þessum hótunum af hörku og ekki leyfa Bandaríkjunum að vaða yfir Kanada á skítugum skónum. Trudeau hafi aftur á móti ætlað sér að fara mjúkum höndum um Trump og efla samstarf þjóðanna.
Trudeau sagðist á blaðamannafundinum aðeins sjá eftir einu, að hafa ekki breytt kosningakerfinu. Réttast væri að kjósendur fengju að hafa meira um það að segja hvaða ríkisstjórn tekur við völdum svo sem með því að geta raðað flokkum í sæti á kjörseðli, þ.e. valið flokka til vara.