Maðurinn var ákærður fyrir að kasta glerglasi í andlit annars manns með þeim afleiðingum að fórnarlambið hlaut tilfærslu á vinstri hliðarframtönn.
Dómari ákvað að fresta ákvörðun um refsingu í málinu í tvö ár haldi hann almennt skilorð. Honum var þó gert að greiða fórnarlambi sínu 500 þúsund krónur í miskabætur og tæpar 210 þúsund krónur vegna fjártjóns. Þá var honum gert að greiða málskostnað, 306 þúsund krónur, og málsvarnarlaun verjanda síns, 483 þúsund krónur, og 32 þúsund krónur í annan kostnað.
Samtals er þetta um ein og hálf milljón króna.
Árásarmaðurinn játaði brot sitt en í dómi kemur fram að hann hafi horfið af vettvangi eftir brotið og flutt af landi brott fljótlega eftir það. Maðurinn bar að honum hafi verið ókunnugt um að glasið hefði lent í andliti brotaþola og enn enn frekar að tjón hefði hlotist af háttsemi hans, sem hann vefengdi þó ekki.
Var litið til þess að maðurinn var ungur að árum þegar hann framdi brotið og af sakavottorði að dæma hefði hann ekki komist í kast við lögin fyrir eða eftir umræddan atburð á English Pub.
Á hinn bóginn þurfi einnig að líta til þess að maðurinn lét sér í léttu rúmi liggja hvar glasið lenti í umrætt sinn og það hafi ekki verið honum að þakka að ekki fór verr.
Dómurinn í málinu féll 30. desember síðastliðinn.