Fyrsti þáttur kvikmynda-og sjónvarps hlaðvarspins Tveir á toppnum, í umsjón fóstbræðranna Þórarins Þórarinssonar og Odds Ævars Gunnarssonar, er lagður undir umræður um hið sígilda þrætuepli fyrstu daga hvers nýs árs, áramótaskaup RÚV.
Tveir á toppnum fengu til sín blaðamanninn Jakob Bjarnar Grétarsson sem lá ekki á skoðunum sínum frekar en fyrri daginn og fann skaupinu flest, ef ekki allt til foráttu. Jakob Bjarnar byrjaði á að staðfesta að ákall hans til Jesús Péturs á Facebook klukkan 23:21 á gamlárskvöld hafi verið til marks um að hann hafi verið að bugast undan áramótaskaupinu.
„Það passar. Sú meining liggur alveg fyrir og var augljós,“ sagði Jakob sem þarna taldi eiginlega orðið alveg „útséð með að þetta myndi sjá til sólar.“
Hann bætti síðan við að af öllum þeim fjölda atriða sem saumuð voru saman í skaupinu hafi tvö verið sómasamleg. „Hitt var bara drasl.“ Jakob sagðist hafa getað brosað út í annað þegar kynlaus fornafnanotkun vafðist fyrir Kötlu Margréti „og svo líka þegar frú Halla, forseti Íslands, kúltúrsnauð með öllu var að endurhanna Bessastaði. Það var svakalega fínn skets.“
Jakob sagði því ekki hafa verið mikið um hlátrasköll enda var „þetta einhvern veginn svo hugmyndasnautt. Það fléttuðust aldrei saman nein atriði. Það var aldrei reynt að gera eitt eða neitt. Þetta var bara kassalaga af mishrútleiðinlegum númerum.“
Jakob taldi sig vel geta varið álit sitt á skaupinu með fræðilegum rökum og benti á að nauðsynlegt væri að greina svolítið hvernig fyrirbæri skaupið er. „Skaupið er karnival. Þar er árið gert upp og þá má allt. Þarna á að gera grín að öllum þeim sem mega sín einhvers. En þetta var líka eina skiptið á árinu sem þetta mátti,“ sagði Jakob með vísan til árlegs miðaldafyrirbæris þegar hirðfíflið leysti konunginn af og múgurinn fékk að ráða.
„Nema það að núna á seinni árum. Þá hefur þetta breyst í einhvers konar wók-helvíti, þetta skaup. Vegna þess að það er aldrei gert grín að ráðandi öflum. (Sem eru hver? Það er þessi femínismi. Það er aldrei gert grín að konum í þessu skaupi.)“ Jakob bætti við að honum þætti þetta svo leitt. „Að fólk skuli ekki átta sig á þessu eðli karnivalsins.“ Þessu fylgdi síðan ákveðinn fyrirsjáanleiki og þegar hið óvænta væri tekið út snerist grín upp í eitthvað allt annað.
„Þegar þú veist alltaf að hverju spjótin beinast þá er þetta ekki lengur húmor þá er þetta níð. Þá er þetta einhliða níð. Þannig að ég sé bara ekkert fyndið við eitthvað prógramm, ég tala nú ekki um, sem á að vera karnivalískt í eðli sínu, sem er lagt upp beinlínis þannig.“
Þórarinn benti á að skoðanir á skaupinu væru þó ekki einhliða frekar en endranær og velti því upp hvort margumtöluð skautun gæti haft eitthvað með það að gera hversu heitar tilfinningar fólks væru orðnar í garð einhvers sem einhvern tímann þótti frekar græskulaust grín.
„Ég held þetta hafi ekki verið svona hérna áður Það eru rosalega margir alltaf tilbúnir til að móðgast og tryllast út í skaupið. Og náttúrlega anti-wókararnir allir sáu bara pólitísku slagsíðuna og allt það.“ Jakob greip þetta á lofti. „Já, blasti við þeim og, bara svo ég rétt skjóti inn í, á meðan við sjáum fólk sem við getum hæglega kallað wókstera. Þeir keppast við að verja þetta og keppast við að halda því fram að þeim hafi fundist þetta alveg rosalega fyndið. Hvað segir þetta okkur þegar þetta skiptist svona í tvö horn með álit á þessu skaupi? Það að þetta er einhliða níð.“
Fjörugar umræðurnar fóru fram og til baka og þremenningarnir reyndu að festa hendur á þessu margbrotna umræðuefni þangað til Oddur Ævar reyndi að átta sig nákvæmlega á hvert Jakob væri að fara. „Ókei, í stuttu máli. Þú ert ósáttur, Jakob, við skaupið núna af því að skaupið er karnival og það var ekki gert grín að femínistum og wókisma?“ „Nei, nei. Mér er alveg sama hvað það heitir. Ég er bara að tala um það að þegar við erum að tala um fyrirbæri eins og skaupið og bara húmor reyndar almennt þá á hann ekki að vera að setja sjálfum sér einhverjar skorður út frá einhverri kröfu sem er bara tiltölulega nýtilkomin. Þetta er grín, nema það má ekki gera grín að þessum og hinum og hinum og hinum og hinum. Mér finnst þetta bara vera skökk hugsun og mér finnst skaupið hafa undanfarin ár verið algerlega undirselt því. Og það bara færist í aukana ef eitthvað er. Því miður. Því miður.“