fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Stöðvið bruðlið, segir þjóðin

Eyjan
Föstudaginn 3. janúar 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sparnaðarráðin streyma nú inn til ríkisstjórnarinnar í hundraða- og þúsundatali eftir að ríkisstjórnin óskaði eftir aðstoð almennings um góð sparnaðarráð á samráðsgátt stjórnvalda. Orðið á götunni er að meðal innsendra ráða séu mörg góð ráð sem skynsamlegt væri fyrir ríkisstjórnina að taka alvarlega og hrinda í framkvæmd.

Mannréttindastofnun á að hefja starfsemi nú í byrjun janúar. Auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra hennar og tilkynnt um stjórnarformann. Orðið á götunni er að lagt sé til að þetta ferliverði stöðvað strax og tilkynnt um að framhald verkefnisins verði metið og svo hætt alveg við það. Verkefnum fyrirhugaðrar stofnunar sé þegar sinnt inni í ráðuneytum og ný stofnun því óþörf.

Þá hefur heyrst að komið hafi fram tillaga um að hætt verði við hugmyndir um stofnun varasjóðs sem fengi til sín arð af opinberum orkufyrirtækjum, aðallega Landsvirkjun. Arðurinn af Landsvirkjun rennur beint í ríkissjóð. Verði hann settur í sérstakan sjóð þá fær ríkissjóður ekki þær tekjur strax og þyrfti þá að skera niður eða skattleggja sem því næmi. Slík sjóðsstofnun væri því eins að pissa í skóinn sinn og myndi auka flækjustig og hafa margvíslegan kostnað í för með sér.

Orðið á götunni er að margir hafi sent inn tillögu um að fastsetja sem reglu að aðstoðarmenn verði ekki fleiri en einn á hvern ráðherra. Í fyrri ríkisstjórn voru allir ráðherrar með tvo aðstoðarmenn. Það er óþarfi.

Margir munu hafa lagt til að gerð verði skjót úttekt á útþenslu stjórnarráðsins og fengið svar við því hvers vegna launuðum störfum í sumum ráðuneytum hefur fjölgað um marga tugi á nokkrum árum. Í kjölfarið skuli hefja skipulega fækkun starfa til að lækka rekstrarkostnað stjórnarráðsins.

Orðið á götunni er að ýmsir hafi bent á það bruðl sem fylgir því að hafa sérstaka bifreið og einkabílstjóra til afnota fyrir ráðherra öllum stundum. Í Noregi er rekin bílastöð fyrir ríkisstjórnina þar sem ráðherrar kalla eftir þjónustu bifreiða eftir þörfum. Með þeim hætti dugar að hafa helmingi færri bifreiðar í rekstri en nemur fjölda ráðherra. Hér mætti þannig spara 5 bifreiðar og bílstjóra í rekstri.

Orðið á götunni er að margar tillögur hafi komið fram um að sameina stofnanir sem gætu átt samleið eins og Samkeppniseftirlitið, Neytendastofu, Póst & fjarskiptastofnun og Fjölmiðlanefnd. Væntanlega væri ráð að leggja þessar stofnanir niður og setja nýja á stofn. Með því ætti að geta sparast mikill kostnaður við yfirstjórn, skrifstofuhald, húsnæði og fjármálastjórn.

Þá virðast margir vera búnir að fá sig fullsadda af ohf-væðingu ríkisstofnana og orðið á götunni er að komið hafi tillögur um að setja RÚV á fjárlög og hætta með sérstakt Útvarpsgjald. Sama fjárhæð rynni í ríkissjóð með öðrum sköttum. Þá yrði RÚV á fjárlögum eins og aðrar ríkisstofnanir og þyrfti að gera grein fyrir fjárþörf sinni gagnvart fjárveitingarvaldinu á hverju ári. Með því mætti draga úr fjárveitingum til RÚV og beita þar sparnaði og aðhaldi eins og aðrir fjölmiðlar hafa þurft að gera um árabil. Einnig félli RÚV þá undir upplýsingalög og yrði ekki lengur það svarthol sem nú er, þegar kemur að gegnsæi.

Margar tillögur snúa að því að gæta hófs í fjárfestingum vegna yfirstjórnar ríkisins. Vítin eru mörg til varnaðar þar sem illa hefur verið farið með opinbert fé. Má þar nefna kaupin á dýrasta skrifstofuhúsnæði landsins á dýrustu lóð landsins undir ráðuneyti eins og gerðist með kaupum á hluta Landsbankahússins. Sama má segja um skrifstofubyggingu Alþingis sem er allt of dýr og allt of stór. Mikilvægt er að ekki verði haldið áfram með vanhugsaða viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Gera þarf kröfu um betri nýtingu skrifstofuhúsnæðis hjá ríkisstofnunum og sérstaklega yfirstjórn ríkisins sem getur alveg notað opið skrifstofurými eins og flest stærri fyrirtæki eru löngu farin að gera í sparnaðarskini.

Orðið á götunni er að hægt sé að spara umtalsverða fjármuni með því að sameina háskólana á Íslandi þannig að þeir verði einungis tveir en ekki átta eins og nú er. Undir Háskóla Íslands gætu fallið Bændaskólinn á Hvanneyri, Bændaskólinn á Hólum, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands. Við Háskólann í Reykjavík bættust Háskólinn á Bifröst og Keilir. Í Danmörku er talið hæfilegt að hafa einn háskóla á hverja 500.000 íbúa. Mikið má læra af því.

Orðið á götunni er að læra þurfi af því hörmulega fjárfestingar- og menningarslysi sem yfirtaka opinberra stofnana á Hótel Sögu er þar sem verið er að breyta glæsilegu hóteli í íbúðir fyrir stúdenta og skrifstofur fyrir Háskóla Íslands. Hér sé um vanhugsaða aðgerð að ræða sem þurfi að vinda ofan af og læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið vegna þessa. Kostnaður vegna breytinga og viðgerða á byggingunni er þegar kominn mörgum milljörðum króna fram úr öllum áætlunum.

Marka þarf raunhæfa stefnu í gerð jarðganga. Leggja þarf áform um Seyðisfjarðargöng til hliðar enda geta göng þangað aldrei orðið arðsöm eða réttlætanleg.

Orðið á götunni er að einnig þarf að leggja til hliðar hugmyndir um jarðgöng til Siglufjarðar frá Ketilási í Fljótum. Vegurinn er orðinn hættulegur og þá ætti einfaldlega að loka honum. Prýðileg jarðgöng eru til Siglufjarðar um Héðinsfjörð frá Ólafsfirði. Þau nægja þessu fámenna byggðarlagi fyllilega. Þessu til viðbótar ætti að leggja algerlega til hliðar athugun og hugmyndir um gerð jarðgangna til Vestmannaeyja. Slíkt yrði allt of dýrt og engan veginn raunhæft.

Tillögur munu hafa komið fram um að þess verði gætt við hönnun stórra brúa á Íslandi að kostnaður við brúarsmíðina verði ekki óþarflega hár. Bent er á dæmi um brýr sem hafa verið hannaðar með tilliti til útlits eins og til dæmis ný brú yfir Ölfusá og fyrirhuguð brú úr Nauthólsvík til Kópavogs. Þessar tvær brýr eru taldar verða milljörðum dýrari en þyrfti að vera. Orðið á götunni er að mikilvægt sé að hafa hönnunina einfalda og spara með því óþarfa fjárútlát. Rétt væri að vinda ofan af þessum tveimur dæmum strax og læra af reynslunni varðandi framhald.

Orðið á götunni er að ýta þurfi út af borðinu hugmynd um að reisa nýtt afplánunarfangelsi á Litla-Hrauni í stað þess sem er ónýtt. Ekkert kalli á að þar rísi nýtt fangelsi. Hagkvæmast og eðlilegast væri að byggja afplánunarfangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík í tengslum við fangelsið sem þar er. Þá mætti samnýta innviði, mannafla og þjónustu sem kæmi mun betur út og yrði hagkvæmara í alla staði. Það yrði ódýrara í rekstri en fangelsi að Litla-Hrauni í rekstri og heppilegra hvað varðar staðsetningu í námunda við dómstóla á höfuðborgarsvæðinu og ýmsa þjónustu.

Ríkisstjórnin þarf strax að láta taka saman tæmandi yfirlit yfir opinberar stofnanir og gera það opinbert þannig að auðveldara verði að nálgast það viðfangsefni að fækka þeim eða sameina einstaka stofnanir. Opinberar stofnanir munu nú vera 160 talsins sem er galið í ekki stærra ríki en Ísland er. Orðið á götunni er að eðlilegt fyrsta skref sé að setja það viðmið að starfsfólki fækki um 5 prósent á þessu ári hjá öllum stofnunum með því að setja á ráðningarbann eða segja upp fólki eftir atvikum. Gerðar verði ráðstafanir til að ríkissjóður hafi betri yfirsýn yfir starfsemi og viðfangsefni allra þessara stofnana.

Orðið á götunni er að sama ætti að gilda um rekstur stjórnarráðsins og yfirstjórnar ríkisins. Þar hefur fjölgun starfsmanna verið langt umfram það sem gerist á almennum vinnumarkaði hin síðari ár. Vinda þarf ofan af því í sparnaðarskini og því væri gott fyrsta skref að fækka starfsmönnum um 5 prósent á þessu ári með ráðningarbönnum eða uppsögnum eftir atvikum.

Fjöldi tillagna snýr að kostnaði við rekstur Seðlabanka Íslands. Gera þurfi tæmandi yfirlit yfir starfsemi og verkefni Seðlabankans sem hefur þanist út að umfangi og kostnaði hin síðari ár. Þær upplýsingar ættu svo að liggja til grundvallar tillögum um sparnað og aðhald í rekstri Seðlabanka Íslands.

Orðið á götunni er að skilaboð þjóðarinnar til nýrrar ríkisstjórnar séu skýr: Stöðvið bruðlið!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund
Eyjan
Fyrir 1 viku

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jesús gerði engin kraftaverk

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jesús gerði engin kraftaverk
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Segir stjórnarsáttmálann rýran og Flokkur fólksins hafi gefið mikið eftir

Segir stjórnarsáttmálann rýran og Flokkur fólksins hafi gefið mikið eftir