fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fréttir

Ólafsfjarðarmálið fer fyrir Hæstarétt

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 3. janúar 2025 12:37

Mynd sjónarvottar sýnir lögreglu og sjúkralið koma inn í Ólafsfjörð nóttina örlagaríku sem Tómas Waagfjörð lét lífið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni ríkissaksóknara um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í hinu svokallaða Ólafsfjarðarmáli. Í málinu sýknaði Landsréttur Steinþór Einarsson af ákæru um manndráp, fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana á Ólafsfirði í október 2022. Steinþór hafði áður verið sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Ólafsfjarðarmálið: Verjandi Steinþórs ánægður með sýknudóminn – „Réttlætið sigraði“

Steinþór er ekki nafngreindur í ákvörðun Hæstaréttar en augljóst er af samhengi hennar að um er að ræða þetta mál.

Í ákvörðun Hæstaréttar eru helstu niðurstöður Landsréttar og Héraðsdóms raktar. Þar segir að gagnaðili (Steinþór) hafi verið sakfelldur fyrir manndráp með því að hafa aðfararnótt mánudagsins 3. október 2022 svipt brotaþola (Tómas) lífi með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi með þeim afleiðingum að mjaðmaslagæð fór í tvennt og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða. Var háttsemin talin varða við 211. grein almennra hegningarlaga. Þá var Steinþór einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot.

Steinþór var dæmdur til átta ára fangelsisvistar og greiðslu skaðabóta. Í dómi Landsréttar kom hins vegar fram að ekki yrði annað ráðið en að Tómas hefði átt upptök að átökum hans og Steinþórs. Yrði ekki önnur ályktun dregin en að um ofsafengna og lífshættulega árás hefði verið að ræða af hálfu Tómasar sem Steinþór hefði haft rétt á að verjast. Steinþór hefði á hinn bóginn beitt vörnum sem hefðu verið augsýnilega hættulegri en árásin og það tjón sem af henni mátti vænta.

Hafi gengið of langt en grundvöllur fyrir sýknu

Þrátt fyrir að yrði að leggja til grundvallar að Steinþór hefði gengið lengra í að verjast hinni ólögmætu árás en efni hefðu staðið til taldi Landsréttur óhjákvæmilegt að líta til þess að hann hefði verið að verjast óvæntri og lífshættulegri árás með eggvopni. Landsréttur taldi uppfyllt skilyrði 2. málsgreinar 12. greinar almennra hegningarlaga þar sem miða yrði við að Steinþór hefði verið svo skelfdur eða forviða er hnífurinn stakkst í síðu Tómasar í tvígang að hann hefði ekki getað fullkomlega gætt sín. Hann var þar með sýknaður af ákæru um manndráp og einnig sýknaður af ákæru um umferðarlagabrot.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að ríkissakóknari hafi farið fram á áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli að málið sé einstakt og fordæmisgefandi enda hafi áðurnefndri grein almennra hegningarlaga afar sjaldan verið beitt og Hæstiréttur aðeins einu sinni sýknað með vísan til ákvæðisins. Í ljósi þessa sé afar mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar. Ríkissaksóknari bendi á að beiting ákvæðisins snúi að mati á huglægu ástandi þess sem fari út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar.

Um sé að ræða einstaklingsbundnar ástæður sem verði að sýna fram á með nægilegum líkum. Ekkert í framburði Steinþórs hafi borið með sér að ákvæðið ætti við um hann. Ríkissaksóknari telji Steinþór hafa verið ranglega sýknaðan af manndrápi og dómur Landsréttar sé því bersýnilega rangur að efni til. Ekki sé hins vegar farið fram á endurskoðun á dómi Landsréttar um sýknu Steinþórs af umferðarlagabrotum.

Hæstiréttur segir í ákvörðun sinni að af gögnum málsins verði að telja að úrlausn þess kunni að hafa verulega almenna þýðingu meðal annars um túlkun og beitingu 2. málsgreinar 12. greinar almennra hegningarlaga og samspil ákvæðisins við 1. tölulið 1. málsgreinar 74. greinar laganna. Beiðni ríkissaksóknara um áfrýjunarleyfi sé því samþykkt.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Segir Þorgerði hafa skilið Kristrúnu og Ingu Sæland eftir „eins og hornkerlingar“

Segir Þorgerði hafa skilið Kristrúnu og Ingu Sæland eftir „eins og hornkerlingar“
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að mikill fjöldi rússneskra og norðurkóreskra hermanna hafi fallið síðustu daga

Zelenskyy segir að mikill fjöldi rússneskra og norðurkóreskra hermanna hafi fallið síðustu daga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurftu að lenda með veikan mann á Íslandi og flugið tafðist um 54 klukkutíma

Þurftu að lenda með veikan mann á Íslandi og flugið tafðist um 54 klukkutíma
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar