fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund

Eyjan
Sunnudaginn 29. desember 2024 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að fátt gleðji forystu og flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Vinstri stjórn Bjarna Benediktssonar með VG og Framsókn galt afhroð í þingkosningum um síðustu mánaðarmót og fylgi flokksins mældist hið minnsta í gervallri sögu flokksins sem spannar nær heila öld. Niðurstaðan, 19,4 prósent, er reiðarslag og fylgið hefur fallið um nær helming frá því Bjarni tók við formennsku árið 2009. Bjarni Benediktsson reynir að brosa gegnum tárin og talar um „varnarsigur“ í viðtali nú um helgina. Það vinnst hins vegar enginn varnarsigur þegar taplið gengur stigalaust af velli. Þetta veit Bjarni sem gamall fótboltamaður. Menn verða að horfast í augu við það að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar.

Orðið á götunni er að forysta Sjálfstæðisflokksins átti sig nú smám saman á því að flokkurinn er kominn í margra ára valdalausa stjórnarandstöðu, nokkuð sem hann prófaði síðast fyrir ellefu árum. Valdaflokkur af þessu tagi kann ekki að tapa, kann ekki að vera í stjórnarandstöðu og líður því illa með þetta nýja hlutskipti sitt.

Meðal flokksmanna ríkir nú mikið svekkelsi, pirringur, ólund eða hvað menn vilja kalla það. Reiðin beinist bæði út á við og inn á við í flokknum. Nú er kominn upp ágreiningur um tímasetningu landsfundar sem hafði verið ákveðinn í lok febrúar nk. Skyndilega heyrast raddir innan úr hópi flokkseigenda þar sem talað er fyrir frestun landsfundar. Jens Garðar Helgason, nýr þingmaður Samherja, kynnti þá skoðun að fresta eigi landsfundi fram á næsta haust vegna veðurs. Landsfundir flokksins eru jafnan haldnir við svipaðar veðuraðstæður og algengar eru í lok febrúar og byrjun mars ár hvert! Þessi afsökun stenst því enga skoðun. Hér er um að ræða hræðslu flokkseigenda við það sem gæti gerst á landsfundi svo skömmu eftir þá niðurlægingu sem flokkurinn mátti þola þann 30. nóvember.

Flokksforystan óttast að Guðlaugur Þór Þórðarson muni bjóða sig fram til formanns að nýju og hafa sigur. Algerlega óháð því hvort Bjarni Benediktsson hefur hug á að halda áfram eða ekki. Ólgan í flokknum er slík að hrópað er á breytingar og í því andrúmslofti stöðvar enginn Guðlaug Þór.

Ekki er vitað hvort Bjarni kjósi sjálfur að hætta núna eða hvort hann vill reyna áfram að lappa upp á laskaða ímynd flokksins áður en hann gengur af velli. Orðið á götunni er að hið síðara væri óklókt því að leiðin virðist stöðugt liggja niður á við. Hætti Bjarni nú er engin samstaða í flokkseigendafélaginu um það hver eigi að taka við. Er það varaformaðurinn eða er það Áslaug Arna, eða er það jafnvel fulltrúi Samherja í þingflokknum, Jens Garðar Helgason?

Einhverjir sem þekkja ekki söguna nefna jafnvel Ásdísi Kristjánsdóttur eða Halldór Benjamín Þorbergsson sem mögulega formannskandídata. Þau tvö báru ábyrgð á kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins árið 2019 þegar samið var um allt of miklar launahækkanir samhliða lengingu orlofs og styttingu vinnuviku. Kunnáttumenn telja þessa samninga þá vitlausustu sem atvinnurekendur á Íslandi hafa gert í áratugi. Enda var þeim Halldóri og Ásdísi ýtt út úr forystustörfum hjá Samtökum atvinnulífsins með þeim hætti sem hafður er þegar losna þarf við fólk þar á bæ. Þau máttu samt bæði vel við una, hún varð bæjarstjóri en hann forstjóri. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að setja markið hærra.

Orðið á götunni er að lykilfólk innan Sjálfstæðisflokksins sætti sig alls ekki við frestun landsfundar þó að Bjarni og hans fólk sé hrætt. Bessí Jóhannsdóttir tjáði sig skýrt um það að hún teldi enga ástæðu til frestunar. Þvert á móti þyrftu flokksmenn nú að koma saman og freista þess að endurskipuleggja baráttuna. Bessí er formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna sem er virkasta einingin innan flokksins. Samtökin halda reglulega vel sótta fundi og þar er traustasta fylgi flokksins nú orðið. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður og fyrrum aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, tók í sama streng, rétt eins og formaður Varðar í Reykjavík.

Flokksmenn nötra af bræði og svekkelsi út í flokksforystuna. En orðið á götunni er að Bjarni Benediktsson og helstu stuðningsmenn hans nötri nú af ótta við Guðlaug Þór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Ekki sama hver flytur inn vöruna

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Ekki sama hver flytur inn vöruna
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina