Í kristninni felst hugsanlega fyrsta vinnuverndarlöggjöfin sem mannkynið á, hinn heilagi hvíldardagur. Það er bæði gott og vont að jólin skuli vera orðin svo kaupsýsluvædd sem raun ber vitni. Það dregur fram misskiptinguna á Íslandi, en hér á landi alast þúsundir barna upp í fátækt. Jólahaldið heima í stofu hefur áhrif út í samfélagið og er ekki okkar einkamál. Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugardalssókn, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar á jólum.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
„Jólin eru að verða mjög hedónísk hátíð og minna kannski um margt frekar á Díonýsusardýrkun heldur en kristindóm en það er í sjálfu sér, finnst mér, ekki slæmt vegna þess að við verðum að vera góð við okkur,“ segir Davíð Þór.
Hann heldur áfram: „Halda skaltu hvíldardaginn heilagan. Þó að það sé hægt að fara með þann boðskap út í öfgar, eins og Jesús benti á þegar hann var skammaður fyrir að lækna á hvíldardegi. Og, hvað, ef asninn þinn dettur í brunninn, ætlarðu þá ekki að draga hann upp af því að það er hvíldardagur? Lög eru sett fyrir fólk en ekki fólk fyrir lög.“
Hann segir þetta hugsanlega vera einhverja fyrstu vinnuverndarlöggjöfina sem mannkynið eigi. „Halda skaltu hvíldardaginn heilagan. Atvinnurekendur voru hreinlega skikkaðir til að gefa starfsfólki frí einn dag í viku.“
Hann segir kaupsýsluvæðingu jólanna hugsanlega hafa verið óumflýjanlega út frá hugmyndinni um að gefa gjafir, sem rekja megi til þess að vitringarnir gáfu Jesúbarninu gjafir og þannig minnumst við þess atburðar með því að gefa hvert öðru gjafir. „Þær áttu að vera litlar og táknrænar en eru svo sem löngu hættar að vera það. fólk er að gefa bíla og vélsleða og ég veit ekki hvað í jólagjöf. Það vonda við þessa þróun er að, og kannski er það ekki vont, kannski er það bara gott, að hún dregur svo fram misskiptinguna í samfélaginu. Við megum ekki gleyma því að það eru þúsundir barna að alast upp í fátækt á Íslandi. það eru til eldri borgarar sem hafa töluvert minna en lágmarkslaun sér til framfærslu á mánuði. og langar að gefa barnabörnunum fallegar gjafir en bara geta það ekki, að ég tali nú ekki um útlendinga. það var bara í síðustu viku, í vikunni fyrir jól var hjá mér pólskur maður sem kom bara með tárin í augunum, hafði ekki borðað mat í þrjá daga, vinnuveitandinn hans neitaði að borga honum. Dæmigert launaþjófnaðarmál, verkalýðsfélagið var komið í málið, en hann átti ekki krónu og vinnuveitandinn ætlaði að senda hann heim, slyppan og snauðan, með næstu vél.“
Er þetta algengt?
„Þetta er ótrúlega algengt. Þessi maður, ef hann var ekki sendur heim fyrir jólin, þá veit ég ekki hvernig jólin voru hjá honum. Það er svo sárt að tilheyra þessum hópi sem er skilinn út undan. Krakkar sem fá lítil og snautleg jól, ef einhver, eru í bekk með krökkum sem fá mjög hedónísk og íburðarmikil jól. Þetta er það sem mér þykir sárast við jólahald okkar eins og það er núna, það er svo egósentrískt að við hugsum ekki um að gjörðir okkar hafa samfélagsleg áhrif langt út fyrir þitt jólahald, þitt jólahald heima í þinni stofu er í raun og veru ekki þitt einkamál.“