Algjörlega galið atvik átti sér stað á fótboltaleik í Argentínu á dögunum en spilað var í Rosario þann 19. desember.
Vopnaður maður gerði marga hrædda á leiknum en um var að ræða leika á milli unglinga og hvað nákvæmlega gerðist er óljóst.
Einhver slagsmál brutust út í þessari annars vinalegu viðureign en maður vopnaður byssu skaut í átt að leikmanni annars liðsins.
Bæði leikmenn og áhorfendur hlupu burt um leið og skothljóðið heyrðist en atvikið náðist á upptöku.
Af hverju þessi ónefndi maður var með byssu á leiknum eða af hverju hann réðst á einn af leikmönnunum er ekki vitað að svo stöddu.
Eigandi vallarins hafði þetta að segja um málið:
,,Bæði lið eru vön því að nota þennan völl. Við höfum hins vegar aldrei séð þennan vopnaða mann,“ er haft eftir eigandanum.
Lögreglan í Argentínu er að skoða málið en sem betur fer er í lagi með strákinn sem fékk aðhlynningu stuttu síðar.