fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 27. desember 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjálmar Friðriksson, blaðamaður Samstöðvarinnar, var í morgun sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í tveimur meiðyrðamálum er varða skrif hans um ráðningarþjónustuna Elju.

Þann 17. október 2023 birti Hjálmar grein á vef Samstöðvarinnar þar sem hann kallaði eigendur Elju nútíma þrælahaldara. Tilefni skrifanna voru fréttir um að erlendur verkamaður sem bjó við slæmar aðstæður hafi látið lífið í eldsvoða að Funahöfða, þar sem hinn látni bjó. Húsnæðið var í eigu Péturs Árna Jónssonar, framkvæmdastjóra HEILD fasteignafélagsins og aðaleiganda útgáfufélags Viðskiptablaðsins, Jóns Einars Eyjólfssonar, stjórnarmanns hjá Elju starfsmannaþjónustu, og Arnars Haukssonar, sem starfað hefur sem stjórnandi hjá Elju.

Hjálmar kallaði þá alla þrjá og fyrirtækið Elju til ábyrgðar í greininni og sakaði alla þessa aðila um þrælahald. Honum var stefnt fyrir meiðyrði og var krafist ómerkingar á ummælunum. Var málareksturinn gegn blaðamanninum í tveimur hlutum, þar sem annars vegar var rekið mál Elju gegn honum og hins vegar mál þremenninganna. Elja krafðist ómerkingar eftirfarandi ummæla:

1. Sannleikurinn er þó að Elja stundar nútíma þrælahald, sem hefur nú dregið mann til dauða á Íslandi.
2. Nú hafa þessir vafasömu starfshættir dregið mann til dauða.
3. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það má hafa góðar tekjur af þrælahaldi. Svo er raunin með Elju

Þeir Pétur, Jón og Arna kröfðust ómerkingar eftirfarandi ummæla:

1. Arnar, Pétur Árni og Jón Einar eru nútíma þrælahaldarar.
2. Sannleikurinn er þó að Elja stundar nútíma þrælahald, sem hefur nú dregið mann til dauða á Íslandi
3. Það er ekki að ástæðulausu sem það má með sanni kalla þessa menn þrælahaldara

Þeir Pétur, Jón og Arnar kröfðu Hjálmar hver um sig um þrjár milljónir króna í miskabætur. Elja krafði hann um þrjár milljónir í skaðabætur, þar sem félagið hefði orðið fyrir tekjutapi vegna skrifanna, og um þrjár milljónir í miskabætur. Samtals var Hjálmar því krafinn um 15 milljónir króna í bætur vegna skrifanna.

Skrifin liður í þjóðfélagsumræðu

Dómari í málinu, Sigríður Rut Júlíusdóttir, féllst ekki á að ómerkja ummælin né að Hjálmar hefði valdið eigendu Elju og fyrirtækinu sjálfu miska með skrifum sínum. Segir að skrifin hafi verið framlag mikil mikilvægrar þjóðfélagsumræðu og meta verði ummælin heildstætt í samhengi við heiðarumræðu um aðbúnað erlends verkafólks og þá húsbruna í vistarverum þeirra sem orðið hafa. Einnig segir í niðurstöðunni:

„Fallast verður á það með stefnda að ummælin og fréttirnar sem þau voru hluti af beri það með sér að tilgangur þeirra hafi verið framlag til umræðu um bága stöðu erlendra verkamanna hérlendis. Þó svo að ummælin séu óvægin verður ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að ummælin eða fréttirnar sem þau birtust í hafi haft þann tilgang einan að móðga eða niðurlægja stefnendur af hreinum illvilja…“

Segir einnig að ummælin hafi yfirbragð gildisdóms fremur en beinnar staðhæfingar um staðreynd. Segir einnig að gildisdómurinn eigi sér stoð í staðreyndum:

„Ummælin í heild sinni sem gildisdómur teljast samkvæmt öllu framangreindu hafa næga stoð í staðreyndum. Þar er einkum litið til þess að í annarri frétt stefnda var birtur hlekkur á frétt á Vísir.is sem heimild þar sem stefnendur voru einnig nafngreindir, og í hinni fréttinni sem ummælin voru hluti af birtist hlekkur á eldri frétt DV um starfsemi Elju, fyrirtækis stefnenda, og vísað til umfjöllunar sem þar kom fram. Að sama skapi verður ekki annað séð en að stefndi hafi verið í góðri trú um réttmæti ummælanna þegar þau féllu að virtu því sem komið hafði fram í umræðunni, m.a. í nefndri frétt DV.“

Fullnaðarsigur blaðamannsins

Dæmt var Hjálmari blaðamanni í vil í báðum málunum. Kröfu ómerkingu ummælanna var hafnað sem og öllum bótakröfum. Stefnendur eru jafnframt í báðum málum dæmdir til að greiða Hjálmari 930 þúsund krónur í málskostnað, eða samtals 1.860.000 kr.

Er þetta stórsigur fyrir blaðamanninn og tjáningarfrelsi hans. Lögmaður Hjálmars í málinu var Gísli Tryggvason lögmaður. Segir hann í samtali við DV að niðurstaðan hafi ekki komið honum á óvart:

„Þetta er allt byggt á fordæmum sem ég vísaði til, frá Landsrétti, Hæstarétti og Mannréttindadómstóli Evrópu, eða dómum sem dómarinn fann til og ræddir voru í málflutningi. Þannig að þetta er fullur sigur í samræmi við það að blaðamenn hafi rúmt tjáningarfrelsi um brýn þjóðfélagsmál, eins og það sem lýtur að aðbúnaði erlendra verkamanna, sem hafa jú látist við svona aðstæður.“

Aðspurður segist Gísli ekki endilega eiga von á því að stefnendur áfrýji málinu til Landsréttar. „Mér finnst þetta vera vel rökstuddur dómur, hann er mjög ítarlegur, dómarinn hefur mikla reynslu af þessum málaflokki þannig að mér finnst það ekki mjög líklegt. En við erum ófeimin við að taka á þessu og ég tel þetta vera í samræmi við fordæmisrétt.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Furðar sig á því að hafa fengið barnabætur

Furðar sig á því að hafa fengið barnabætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ólöf Tara er látin

Ólöf Tara er látin