Við spurðum út í öfluga áhrifavaldaparið Guðmund Birki Pálmason og Línu Birgittu Sigurðardóttur. Bæði njóta þau mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum en þau eru einnig mjög kröftug utan netheima. Guðmundur, eða Gummi Kíró eins og hann er þekktur, er kírópraktor á stofunni Líf Kírópraktík og er með fatamerkið Autumn Clothing. Lína Birgitta á og rekur vinsæla íþróttavörumerkið Define the Line. Hún heldur einnig úti hlaðvarpinu Spjallið ásamt vinkonum sínum.
Ellý spáir fyrir parinu í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á hér eða hlusta á Spotify.
„Það eru ský fyrir ofan þau. Þegar það eru ský í mínum heimi, þegar ég er að spá, þá eru þetta nokkur verkefni sem þau þurfa að tækla. Og þetta er lærdómur sem þau þurfa að læra,“ segir Ellý og bendir á tarot spil sem hún heldur á.
„Hér er verið að fara í gegnum ský og hér eru þau komin út úr skýjabakkanum […] Hún [Lína Birgitta] er með verkefni í fangi, hún er í gullskikkju og þetta vex og vex og dafnar.“
Aðspurð hvort það sé gott fram undan hjá Define the Line svarar Ellý játandi. „Og stundum þarf maður að fara í gegnum nokkra hóla, erfiðleika, svo allt í einu gerist það og það kemur úr óvæntustu átt og henni gengur mjög vel, ég veit ekki með hann. Hann er þarna við hliðina á henni.“
Fyrirtæki Gumma Kíró, Kírópraktorstöð Reykjavíkur ehf, var úrskurðað gjaldþrota í haust.
Sjá einnig: Eldri kírópraktorstöð Gumma Kíró úrskurðuð gjaldþrota
„Þetta er bara lærdómur,“ segir Ellý um erfiðleikana og bætir við: „Þau eru að ganga í gegnum hlið og það er bara birta sem bíður þeirra.“
„Þau taka þetta ekki nærri sér. Auðvitað er alltaf erfitt, eins og hann hefur verið að fara í gegnum, en hann heldur áfram og þau halda áfram. Þau eru bæði sterk og hugrökk og það er ekkert annað í boði en að halda áfram, og þau vita það.“