Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur fordæmt ákvörðun Rússa að skjóta rúmlega 70 eldflaugum og 100 drónum á landið í morgun á meðan þjóðin fagnaði jólunum. Zelensky segir árásirnar hreint ómannúðlegar.
Árásunum var helst beint að orkuinnviðum sem varð til þess að orka í landinu er nú af skornum skammti og fólk þarf að gera sér að góðu að takmarka orkunotkun þrátt fyrir jólahaldið. Um klukkan 10 í morgun var talið að rúmlega hálf milljón íbúa væri án hita og rafmagns.
Forseti Moldóvu, Maia Sandu, segir árásina hafa brotið alþjóðalög þar sem eldflaugar Rússa hafi flogið í gegnum lofthelgi Moldóvu. Hún skrifaði á samfélagsmiðilinn X: „Á meðan þjóðir okkar fögnuðu jólunum völdu stjórnvöld í Rússlandi eyðileggingu og beindu árásum að orkuinnviðum Úkraínu og rufu lofthelgi Moldóvu með eldflaugum, sem er aðgerð sem brýtur klárlega gegn alþjóðalögum. Moldóva fordæmir þessar aðgerðir og stendur að fullu með Úkraínu.“
Rússar hafa gengist við árásinni og segjast hafa náð markmiðum sínum. Rússar vilja meina að árásin hafi aðeins beinst að ákveðnum innviðum en að sögn Úkraínu beindust árásirnar eins að íbúðasvæðum. Meðal annars hafi fjölbýlishús í Kharkiv orðið fyrir eldflaugum.
Úkraína hafði áður fagnað jólunum 7. janúar, að rússneskri fyrirmynd. Eftir innrás Rússa ákvað Zelensky að breyta lögunum og fagnar þjóðin nú jólunum á jóladag að vestrænum sið.
Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, hefur fordæmt árásirnar.
„Ég ber virðingu fyrir seiglu Úkraínumanna og leiðsögn Zelensky forseta andspænis dróna- og eldflaugaárásum frá blóðugri stríðsvél Pútíns sem sýnir engu eirir, ekki einu sinni á jólunum.“