Cody Gakpo, leikmaður Liverpool, lofsyngur Mohamed Salah í viðtali við heimasíðu félagsins og vonast til að hann verði áfram á Anfield.
Salah er að eiga ótrúlegt tímabil, en samningur þessa 32 ára gamla leikmanns rennur út eftir leiktíðina. Allir í félaginu vilja vitaskuld að hann verði áfram.
„Öll mörkin sem hann skorar og stoðsendingarnar, hvernig hann spilar og setur aðra leikmenn eins og mig í stöður til að skora, þetta er einstakt,“ segir Gakpo.
„Ég vona okkar og hans vegna að hann haldi þessu áfram í langan tíma. Við erum svo heppnir að hafa hann sem liðsfélaga og hann reynir að hjálpa okkur að bæta okkur sem leikmenn. “