Katrín Kristín Gunnarsdóttir, eigandi verslunarinnar Lumex við Skipholt, vísar gagnrýni lektorsins Auðar Magndísar Auðardóttur um vanvirðingu við fatlað fólk til föðurhúsanna. Hún segist aðeins hafa lagt bílnum við ramp fyrir fatlaða í tvö skipti og í stutta stund. Engin illgirni eða hefnd liggi þar að baki gagnvart nemendum Háskóla Íslands.
„Í morgun setti ég bílinn þarna fyrir framan af því að ég var að bera inn dót og það er allt og sumt. Hann var færður fimm mínútum seinna. Ég var með fullt fangið af dóti og það er glerhált fyrir framan,“ segir Katrín. Biðst hún innilega afsökunar á þessu.
Í umtalaðri færslu sem DV greindi frá í dag segir Auður Magndís, lektor við HÍ, að Katrín hafi ítrekað lagt í stæðið, líklega vegna þess að nemendur skólans hafi lagt fyrir framan verslun hennar, sem er við hliðina á skólanum. Sagði hún Katrínu ítrekað hafa lagt bílnum þarna í um ár og taldi fyrst hugsanaleysi um að kenna. Nú telur Auður Magndís að þetta sé gert í illgirni.
„Hún má segja það sem henni sýnist en það er ekki rétt,“ segir Katrín aðspurð um þessi orð Auðar. Það er hvort hún eigi einhverra harma að hefna gagnvart nemendum.
Segist Katrín ekkert hafa heyrt í Auði Magndísi og biður hana að eiga orð við sig ef henni finnst þetta vera svona.
„Ég kann ekki svona vitleysu. Hefnd er ekki til í mínum bókum,“ segir Katrín. „Hér er ekki verið að borga fyrir eitt eða neitt. Við erum bara ekki á sömu línunni, hún og ég. Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini.“
Eins og áður er sagt segist Katrín aðeins einu sinni hafa áður lagt bíl sínum á þessum stað.
„Ég er svo oft að sendast og gera og græja þá er þetta stysta leiðin inn. Sérstaklega þegar það er gler hérna fyrir utan. Þar sem enginn er í skólanum og hann er lokaður þá hugsaði ég að það gæti nú ekki skipt máli með fimm mínútur,“ segir hún að lokum.
Það nýjasta í málinu er að Auður segir á samfélagsmiðlasíðu sinni að lögreglan hafi komið í dag og veitt Katrínu tiltal.
„Það verður gert í hvert sinn hér eftir því þetta er kolólöglegt,“ segir Auður Magndís. „Þetta er stöðubrot og það verður hringt í lögregluna í hvert sinn sem þetta gerist hér eftir. Hún kom í dag og ræddi við hana (og væntanlega sektaði) og bíllinn er kominn í stæði núna.“