fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Einstök vinátta ferfætlinganna Gríms og Tomma gleður „grindvíska flóttamenn“ sem óðum koma sér fyrir í Kópavogi

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 24. desember 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölskylda Laufeyjar Fjólu Hermannsdóttur er loksins komin með öruggan samastað eftir að hafa flúið heimili sitt Grindavík fyrir rúmu ári síðan vegna eldsumbrotanna sem þjóðin þekkir allt of vel. Eftir nokkrar hrakfarir í sumarbústað og leiguhúsnæði flutti fjölskyldan loks í notalegt hús í Kópavogi sem svo merkilega vill til að hefur hefur áður tekið utan um fjölskyldu á flótta  eftir sambærilegar hamfarir en þá var um að ræða Heimaeyjagosið árið 1973. Á meðan breyttur veruleikinn venst á nýjum stað  þá hefur heimiliskötturinn Grímur verið uppspretta mikillar gleði fyrir heimilisfólkið. Það er ekki síst einstæð vinátta hans og nágrannakattar, Tomma, sem hefur yljað fjölskyldunni en hvern einasta morgun mætir Tommi stundvíslega klukkan níu til þess að takast á við daginn með vini sínum sínum frá Grindavík.

„Húsið sem tekur á móti flóttamönnum í annað sinn“

Laufey og fjölskylda hennar hafði búið í Grindavík í 23 ár þegar eldsumbrotin settu strik í reikninginn. „Við flúðum viku fyrir rýminguna, þann 3. nóvember í fyrra,“ segir Laufey. Fjölskyldan fékk þá sumarbústað á Flúðum til afnota og ætlunin var að hvíla sig þar í nokkra daga. En örlögin höguðu því þannig að fjölskyldan fór aldrei aftur heim til Grindavíkur. Alls dvaldist fjölskyldan í fimm vikur í bústaðnum og þaðan lá leiðin í leiguhúsnæði í Árbæ. Óvissan var mikil en þegar tilkynnt var um uppkaup fasteigna í Grindavík tók Laufey og hennar fólk strax þá ákvörðun að selja og setja punkt fyrir aftan tímann góða í Grindavík. Húsið þeirra í bænum var eitt það fyrsta sem fór í gegnum ferlið og þá beindust augu Laufeyjar að Kópavogi en þaðan er hún upprunalega.

„Við keyptum hús á Melaheiði í apríl,“ segir Laufey. Um var að ræða hús í dánarbúi en fyrri eigendur höfðu flutt í húsið eftir að hafa flúið eldgosið í Heimaey árið 1973 og bjuggu svo alla tíð þar. „Þetta hús er því að taka á móti flóttamönnum í annað sinn,“ segir Laufey kímin. Að hennar sögn reyndi þetta tímabil mikið á þau en fjölskyldan er óðum að koma undir sig fótunum og horfir björtum augum til framtíðar í Kópavogi.

Kláraði eitthvað af lífunum níu

Þegar Laufey og hennar fólk flúði Grindavík voru þrír ferfætlingar með í för. Hundurinn Matti, sem var sextán ára gamall og er núna dáinn, sem og kettirnir Ninný og Grímur. „Læðan er orðin fimm ára gömul núna en Grímur var bara sex mánaða þegar við yfirgáfum Grindavík,“ segir Laufey.

Ninný, sem var útiköttur í Grindavíkur hefur aðeins átt erfitt uppdráttar á nýjum stað og treystir sér aðeins út í stutta stund í einu en aðra sögu er að segja af Grími sem hefur blómstrað í Kópavoginum. Hann fékk að fara út í fyrsta sinn, mánuði eftir komuna til Kópavogs, og hófst þegar handa við að bræða nágrannanna, hvort sem þeir ganga um á tveimur fótum eða fjórum.

Nokkrum mánuðum eftir að Grímur fékk ferðafrelsi fékk Laufey hins vegar óþægilegt símtal um að keyrt hefði verið á köttinn hennar á Nýbýlavegi og þar lægi hann hreyfingarlaus á götunni. Óttaðist hún það versta þegar hún rauk á vettvang en þegar þangað var komið kom í ljós að Grímur var horfinn. „Þá kom í ljós að hann hafði líklega aðeins rotast við höggið og þannig sloppið ótrúlega vel. Hann var greinilega verkjaður nokkra daga á eftir en á dýraspítalanum kom í ljós að hann hafði sloppið ótrúlega vel. Hann hefur samt örugglega klárað eitthvað af sínum níu lífum,“ segir Laufey.

Grímur dvaldi því innandyra um skeið á meðan hann var að jafna sig en eftir að hann fékk að fara út að nýju fóru félagslegir hæfileikar hans að koma vel í ljósi. Ljóst var að Grímur var farinn að heimsækja önnur hús í hverfinu því hann kom oft þurr inn þegar blautt var úti og í október fór síðan besti vinur hans, Tommi, að venja komur sínar í flóttamannahúsið við Melaheiði.

Grímur bíður alltaf á sama stað eftir Tomma vini sínum

Hittast stundvíslega klukkan níu

„Hann kemur alltaf um klukkan níu á morgnanna að sækja Grím. Það er eins og þeir hafi samið um tímann,“ segir Laufey og hlær. Grímur er einnig tilbúinn því alla morgna fær hann sér sæti á sama staðnum innandyra og bíður eftir vini sínum. Hann mjálmar svo þegar Tommi er mættur og lætur þannig heimilisfólk vita að hann vilji fara út þegar í stað. Svo halda vinirnir leiðar sinnar, hvert nákvæmlega er óráðið en einn af áfangastöðunum er yfirleitt heimili Tomma en þar hefur Grímur lært á kattalúguna og gengur um eins og um annað heimili hans sé að ræða.

Tommi mættur klukkan níu eins og um var samið

Fyrst um sinn hafði Laufey litlar upplýsingar um hvaða köttur væri að heimsækja Grím. Til að hafa uppi á nafni hans og kannski eiganda auglýsti Laufey á Facebook eftir kettinum. Þá kom í ljós að Grímur er sannkallað félagsmálatröll í hverfinu þrátt fyrir ungan aldur. „Þá kom í ljós að Grímur heimsækir líka annan kött reglulega sem heitir Klængur og býr hérna í nágrenninu. En við vitum ekki hvort Tommi og Klængur séu vinir“ segir Laufey og hlær. Í kjölfar færslunnar bárust einnig upplýsingar um fleiri heimili sem hinn vinamargi Grímur leggur leið sína til.

„Við heyrum líka að Grímur er vinsæll hjá krökkunum í hverfinu. Þau eru að kalla á hann og hann kann vel að meta það,“ segir Laufey.

Vinirnir heilsast og halda saman út í daginn

Fyrstu jól fjölskyldunnar eru fram undan á nýja framtíðarheimilinu í Kópavogi og ljóst að þau verða öllu notalegri en „flóttajólin“ sem þau héldu upp á fyrra í Árbænum.

„Þetta er búið að vera skrýtinn tími og gott að óvissan er að baki. Við erum því miklu tilbúnari í þessi jól og ég finn bara fyrir tilhlökkun hjá allri fjölskyldunni,“ segir Laufey. Grímur hinn félagslyndi hafi komið sterkur inn við að létta lund fjölskyldunnar og leiða hugann frá amstri hversdagsins og þeim erfiðleikum sem þau hafa nú yfirstigið. „Svo sannarlega, hann hefur verið mikill gleðigjafi,“ segir Laufey.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ofuraðdáandi Swift – Mætti á 22 tónleika Eras Tour og eyddi 14 milljónum

Ofuraðdáandi Swift – Mætti á 22 tónleika Eras Tour og eyddi 14 milljónum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu