fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. desember 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórtækan þjófnað á eldsneyti og brot á fíkniefnalögum og umferðarlögum. Maðurinn var einnig ákærður fyrir að beita þáverandi sambýliskonu sína, sem er jafn framt barnsmóðir hans, ofbeldi. Var maðurinn sagður hafa ráðist á konuna í kjölfar þess að þau deildu um afnot af heimilisbílnum. Dómurinn segir manninn sekan um ofbeldið en þar sem brotið hafi ekki verið nógu alvarlegt sé það fellt undir vægari ákvæði hegningarlaga og sé þar með fyrnt. Því hafi ekki annað verið í stöðunni en að sýkna manninn.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar með því að ráðast á hana í mars 2022 á heimili þeirra í Reykjavík. Samkvæmt ákærunni hrinti hann konunni ítrekað, hélt fast um handleggi hennar og þrýsti fast um þá og tók hana hálstaki auk þess að brjóta upp hurðina á baðherbergi heimilisins þegar konan náði að flýja þangað. Var maðurinn ákærður í samræmi við ákvæði 218. grein almennra hegningarlaga um ógn við líf núverandi eða fyrrverandi maka eða sambúðaraðila. Var maðurinn sömuleiðis ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni um 10 grömm af kannabisefnum og að hafa á 4 mánaða tímabili árið 2022 stolið eldsneyti á stöðvum í Reykjavík og Mosfellsbæ að andvirði um 259.000 krónur. Loks var hann ákærður fyrir að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna.

Eyddi stórum hluta ársins í Kvennaathvarfinu

Í dómnum er greint ítarlega frá málavöxtum. Þegar lögreglan var kölluð að heimili mannsins og konunnar í kjölfar árásarinnar greindi konan lögreglumönnum frá því að hún hefði verið í Kvennaathvarfinu í átta mánuði árið áður í kjölfar mikil andlegs og líkamlegs ofbeldis af hálfu mannsins. Sagði hún síðustu vikurnar hafa verið afar erfiðar þar sem maðurinn hafi verið byrjaður að neyta fíkniefna á ný eftir nokkurra mánaða edrúmennsku. Hefði hann ráðist á hana eftir að þau hefðu bæði viljað nota heimilisbílinn á sama tíma.

Maðurinn játaði á vettvangi að vera undir áhrifum fíkniefna og hafa nýlega fallið. Hann neitaði að hafa ráðist á konuna og sagðist hafa slegið í hurðina með flötum lófa sem hefði orsakað nokkrar skemmdir á henni.

Tvær dætur mannsins og konunnar bjuggu á heimilinu og samkvæmt lögregluskýrslu voru aðstæður þar ekki boðlegar fyrir börn. Mikil óhreinindi og óreiða auk fíkniefna og áhalda til fíkniefnaneyslu. Kom einnig fram að mikil kannabislykt hafi verið í íbúðinni. Kannabisefnin sem maðurinn var ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni fundust í íbúðinni við þetta sama tækifæri. Sakaði maðurinn konuna um að eiga efnin og vera að selja þau. Hún neitaði því en játaði að hafa reykt kannabis með honum tveimur til þremur vikum áður.

Marblettir

Konan sleit sambandinu við manninn í kjölfar árásarinnar og fékk áverkavottorð tveimur dögum síðar en samkvæmt því var hún með marbletti víða um líkamann. Þeir voru flestir í smærri kantinum en sá stærsti á stærð við þumalfingur.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu felldi málið niður en ríkissaksóknari sneri þeirri ákvörðun við.

Fyrir dómi neitaði maðurinn enn að hafa beitt konuna ofbeldi í það skipti sem hann var ákærður fyrir. Þau hefðu bæði verið undir áhrifum fíkniefna þennan dag og fíkniefnin sem fundust á heimilinu hefðu verið í eigu þeirra beggja.

Konan sagði fyrir dómi að hún hefði misst andann. Maðurinn hefði áður ráðist á hana en hún aldrei orðið eins hrædd og í þetta skipti. Sagði hún árásina hafa haft mikil áhrif á andlega heilsu sína og hún leitað sér sálfræðiaðstoðar. Hún hafi einu sinni reykt kannabis með manninum eftir að þau tóku saman á ný en hafi ekki verið undir áhrifum þann dag sem hann réðst hana og vísaði því alfarið á bug að hún hefði átt nokkuð í fíkniefnunum sem fundust á heimilinu.

Ógnanir

Núverandi sambýlismaður konunnar kom fyrir dóminn. Hann sagði konuna hafa þurft langan tíma til að jafna sig eftir árásina og að maðurinn hefði áreitt þau og sýnt af sér ógnandi hegðun.

Vinkona konunnar staðfesti einnig að konan hefði glímt við mikinn kvíða og hræðslu og ekki hafi bætt úr skák að maðurinn hefði áreitt hana

Nágranni parsins sagði konuna hafa verið mjög óttaslegna í kjölfar atviksins og sagðist hafa séð mar á líkama hennar. Nágranninn sagðist hafa séð baðherbergishurðina og ljóst væri að mikið hafi þurft til, hurðin hafi verið það illa farin.

Lögreglumaður sem kom á vettvang sagði að konan hefði ekki haft sýnilega áverka en skolfið og verið afar hrædd. Honum og öðrum lögreglumönnum sem komu á vettvang hefði blöskrað þær aðstæður sem börnunum var boðið upp á í búðinni. Frásagnir annarra lögreglumanna sem komu fyrir dóminn voru í svipuðum dúr.

Trúverðug en ekki nógu alvarlegt

Í niðurstöðu Héraðsdóms segir að framburður konunnar sé trúverðugur ekki síst í ljósi þess að hún hafi greint félagsráðgjafa, vinkonu sinni og nágranna frá árásinni með sams konar hætti í hvert sinn. Gögn frá hjúkrunarfræðingi og lækni ýti frekari stoðum undir framburð hennar. Vitnisburðir lögreglumanna auki enn fremur trúverðugleika hennar og ljósmyndir staðfesti að maðurinn hafi gert töluvert meira við baðherbergishurðina en að eingöngu slá í hana með flötum lófa eins og hann hélt fram. Teljist því sannað að maðurinn sé sekur um árásina.

Dómurinn segir hins vegar að ekki hafi tekist að sanna nægilega að maðurinn hafi tekið konuna kyrkingartaki meðal annars vegna þess að ekkert hafi verið minnst á áverka á hálsi þegar kemur að áverkavottorði og sjúkraskrá. Konan hafi upphaflega neitað því að vera með áverka á hálsi og framburðir vitna renni ekki nægilegum stoðum undir fullyrðingar um slíka áverka.

Fellst dómurinn því ekki á að konan hafi hlotið stórfellt líkams- og heilsutjón af völdum mannsins. Árásin teljist því ekki varða við áðurnefnd ákvæði 218. greinar hegningarlaga um ógn við líf núverandi eða fyrrverandi maka eða sambúðaraðila. Heimfæra verði árásina upp á vægari ákvæði 217. greinar en brot gegn henni varði að hámarki 1 árs fangelsi. Fyrningarfrestur slíkra brota sé tvö ár. Þar sem ákæra hafi verið gefin út 10 dögum eftir að tvö ár voru liðin frá árásinni, en rannsókn lögreglu hófst sama dag, sé brot mannsins fyrnt og því verði að sýkna hann.

Í ljósi játningar hans var maðurinn sakfelldur fyrir umferðarlagabrotið, vörslu fíkniefnanna og hinn stórtæka þjófnað á eldsneyti. Í ljósi fyrri brota hans þótti við hæfi að dæma hann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dóminn í heild er hægt að lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Í gær

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg