fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Eyjan
Mánudaginn 23. desember 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segir tíma til kominn að afnema sérréttindi opinberra starfsmanna. Réttindin séu tímaskekkja og rök fyrir þeim halda ekki vatni í nútímasamfélagi. Þetta kemur fram í grein Ásdísar sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Bæjarstjórinn rekur að nýlega hafi Viðskiptaráð Íslands birt úttekt þar sem sérréttindi opinberra starfsmanna eru sögð jafngilda 19 prósenta launahækkun miðað við einkageirann. Þetta séu sérréttindi á borð við ríkari veikindarétt, styttri vinnuviku, aukið starfsöryggi og lengra orlof. Þegar lög um opinbera starfsmenn voru lögfest fyrir um 30 árum var talið mikilvægt að verja opinbera starfsmenn frá afskiptum stjórnmálamanna. Á þessum langa tíma sem liðinn er hafi samfélagið þó breyst mikið. Nú séu verkefni ríkisins fleiri, fjölbreyttari og stundum í beinni samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði. Áður voru laun opinberra starfsmanna lægri en á almennum markaði og þá átti aukið starfsöryggi rétt á sér. Nú sé þessi launamunur nánast enginn.

„Þrátt fyrir breyttar forsendur eru sérréttindi opinberra starfsmanna enn við lýði.“

Ekki bæði sleppt og haldið

Ásdís bendir á að þegar lögin voru sett námu opinber útgjöld um 33 prósentum af framleiðslu þjóðarinnar. Áratug síðar var hlutfallið orðið 40 prósent og í dag sé það nær 50 prósentum.

„Hér hafa opinber umsvif aukist hraðar að meðaltali en í öðrum vestrænum ríkjum og eru með þeim mestu sem þekkjast. Aukið umfang hefur haldist í hendur við fjölgun opinberra starfsmanna sem í dag telja 30% af vinnumarkaði á Íslandi. Hið aukna umfang ríkisins hefur verið fjármagnað með skatttekjum og því hefur skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja vaxið samhliða.“

Opinberi vinnumarkaðurinn sé nú ósveigjanlegri en einkageirinn út af þessum sérréttindum opinberra starfsmanna og þeirrar verndar sem lögin tryggja þessum hóp. Sem dæmi má nefna að opinberir starfsmenn njóta uppsagnarverndar, það er erfiðara að segja upp opinberum starfsmanni en starfsmanni einkageirans. Ásdís bendir á að eins komi lögin í veg fyrir að hægt sé að umbuna opinberum starfsmönnum fyrir góð störf. Væntanlega er bæjarstjórinn þar að vísa til bónusgreiðslna og árangurstengdra greiðslna líkt og tíðkast stundum á einkamarkaði. Ásdís telur eins að með því að afnema þessi sérréttindi sé hægt að auka skilvirkni í opinberum rekstri og stuðla að framþróun.

„Forsendur hafa breyst á þeim 30 árum sem liðin eru frá því að lög um réttindi opinberra starfsmanna voru samþykkt. Rökin fyrir því að opinberir starfsmenn njóti sérréttinda umfram almenna markaðinn halda ekki í því umhverfi sem við búum við í dag.

Ekki verður sleppt og haldið í þessum efnum. Breytinga er þörf.“

Úttektin gagnrýnd

Áðurnefnd úttekt Viðskiptaráðs er ekki óumdeild. Til dæmis ritaði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, grein á dögunum þar sem hún sakaði Viðskiptaráð um forréttindablindu. Sonja kallaði baráttu fyrirtækja og félaga fyrir skerðingu kjara kvennastétta og annarra opinberra starfsmanna sérkennilega. Hún benti á að lög um opinbera starfsmenn verndi stéttir á borð við sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, leikskólaliða, leikskólakennara, stuðningsfulltrúa, grunnskólakennara og starfsfólk hjúkrunarheimila. Þetta séu svokallaðar kvennastéttir og þau störf sem hvað erfiðast er að manna vegna skorts á starfsfólki.

„Við vitum að kvennastéttirnar eru ekki ofaldar af kjörum sínum heldur búa þær þvert á móti við launamisrétti þar sem hið opinbera veitir sér afslátt af störfum þeirra.“

Sonja sagði úttekt Viðskiptaráðs sýna skýrt hvað verðmætamat samfélagsins er skakkt þegar kemur að störfum kvenna og spurði hvort það væri í alvörunni sanngjarnt að viðskiptafræðingur sé að meðaltali með 50 prósent hærri árslaun en leikskólakennari. Leikskólakennarinn sé kannski með 36 stunda vinnuviku en á sama tíma geti viðskiptafræðingurinn notið sveigjanleika í starfi sem leikskólakennaranum býðst ekki. Viðskiptafræðingurinn hafi eins kost á að velja hvar og hvenær hann sinnir vinnu sinni. Viðskiptaráð sé því að bera saman epli og appelsínur með samanburði við einkamarkað enda mikið af opinberum störfum ekki með eiginlega hliðstæðu í einkageiranum.

„Í flestum þeirra er mannekla nú þegar og til framtíðar mun þurfa fleiri til að sinna þeim vegna m.a. breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Ekki síst af þeirri ástæðu er löngu komið gott af því að strákarnir hjá Viðskiptaráði og forstjórar aðildarfyrirtækja þeirra – sem eru með mánaðarlaun sem samsvara nánast árslaunum fjölda kvennastétta – beri á torg gamaldags, karllæg og óupplýst viðhorf sín til starfa og launa kvennastétta.“

Hið opinbera virðist svo hafa fundið leið framhjá lögum um opinbera starfsmenn hvort eð er en í morgun greindi mbl.is frá því að samkvæmt rannsókn Samtaka skattgreiðenda væru ríkisstarfsmenn mögulega allt að 50 prósent fleiri en gefið hefur verið upp – einkum sökum þess að formlegar tölur undanskilja verktaka og starfsfólk með tímabundna ráðningarsamninga. Verktakar njóta ekki verndar tilvitnaðra laga og starfsmenn með tímabundna ráðningasamninga njóta ekki sömu uppsagnarverndar og starfsmenn með ótímabundna samninga – enda rennur samningurinn bara út á tilætluðum degi. Verktaka sé eins notuð til að komast framhjá ráðningarbanni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur