Veðurfræðingurinn Sigurður Þ. Ragnarsson, títt kallaður Siggi Stormur, ræddi sonarmissinn í útvarpsviðtali á Bylgjunni í morgun. Þetta eru fyrstu jólin eftir að Árni Þórður Sigurðsson lést, en hann hafði glímt við mikinn heilsubrest vegna líffærabilunar.
„Ég missti son á árinu, miðsoninn, mikill heimagangur og mjög mikill mömmustrákur,“ sagði Sigurður í viðtalinu. Árni var þrítugur að aldri, ógiftur og barnlaus, og starfaði sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli. Sigurður sagði að hann kviðið jólunum.
Siggi sagði að stríðið hans fyrir lífi sínu hafi hafist þegar hann veiktist 21. desember árið 2021. Þá var honum haldið sofandi í öndunarvél í tæpa sex mánuði. Síðan tók það við að komast á lappir.
„Þetta var allt saman að koma og við trúðum því. Ég sagði við fólk úti á götu að þetta væri bara komið. Þetta væri 95 prósent komið kannski,“ sagði Sigurður. „En svo hefur hann verið veikari en hann kannski lét í veðri vaka. Svo lést hann síðsumars úr afleiðingum af þessum alvarlegu veikindum. Nú eru þetta fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt.“
Sigurður segir þetta vera hræðilegan tíma. Fjölskyldan átti erfið jól fyrst eftir að hann veiktist og var bundinn við vélar.
„Við eigum tvo aðra stráka og maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið, að það sé eitthvað í lagi,“ sagði Sigurður. „En þetta er tími sem er og verður alltaf erfiðastur. Hann var mikill áramótastrákur og fannst afar gaman á áramótunum. Var mikill gítaristi og spilaði reyndar á mörg hljóðfæri. Hann var stuðið á gamlárskvöld. Við þurfum líka að horfa upp á það að áramótaveislur stórfjölskyldunnar verða allt öðruvísi.“
Sigurður sagði að hann gerði sér grein fyrir að svona sé lífið. Enginn hefði lofað að það myndi allt ganga eins og malbikaður vegur.
„Við erum búin að átta okkur á því hjónin að missa barn er eitt það erfiðasta sem maður getur gengið í gegnum,“ sagði Sigurður. En þau hefðu fengið ómetanlegan stuðning, meðal annars frá systkinum hans og fjölskyldu og tengdafjölskyldu. „Pabbi er 95 ára gamall og hjálpar samt og mjög vel. Það hafa allir lagst á eitt og reyna að létta okkur stundina. En auðvitað er þetta þannig að það verður aldrei eins. Tíminn læknar öll sár segja menn og það er hægt að deyfa þetta. En það þarf ekki annað en að þið setjið eitthvað lag á fóninn sem minnir mig allt í einu svo mikið á strákinn, hann Árna, þá tárast maður. Allt tilfinningakerfið fer í gang, rússíbanareiðin sem fylgir því.“
Einnig ef Sigurður finnur bol af Árna heima hjá sér, til dæmis bol með hljómsveitinni KISS sem Árni hafði dálæti á.
„Hann fór meira að segja á tónleika, frekar veikur. Hann gerði ýmislegt á lokametrunum,“ sagði Sigurður.
Sigurður segist vera í sorgarviðbragðanámskeiði og fái að hitta geðlækni reglulega. Hann segir að það sé óskaplega gott og létti á að fá að tala beint út um þetta og að hafa einhvern sem hlustar á mann.