„Það var mikið fjör oft en mamma var grjóthörð, miklu harðari en ég nokkurn tíman. Hún vann alltaf mikið til að eiga mat fyrir okkur,“ segir hann.
Þegar Atli var tíu ára lenti hann í áfalli sem varð til þess að hegðun hans breyttist alfarið. Hann mætti ekki í skólann, fór að leggja í einelti og brjótast inn í geymslur.
„Ég var bara fáviti. Mamma sagði að þarna hætti hún að sjá Atla sem hún þekkti og sá aðra hlið á mér,“ segir hann.
Unglingsárin voru erfið og Atli fór að leita leiða til að flýja líðan sína.
„Ég fór að reykja hass, fann ekkert fyrstu þrjú skiptin en hélt samt áfram. Þegar örvandi efnin komu svo inn opnuðust himnarnir hjá mér og ég gat verið þykjustunni útgáfa af mér, félagsfælnin hvarf og ég gat verið meðal fólks,“ segir hann.
Með aukinni neyslu örvandi efna kemur paranoja og Atli þekkir það ástand vel.
„Ég hélt alltaf að það væri einhver á eftir mér. Ef ég sá flugu hélt ég að það væri myndavél að njósna um mig. Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima. Það var samt enginn á eftir mér,“ segir hann.
Atli sankaði að sér dómum fyrir ölvunarakstra, vopnalaga- og fíkniefnabrot.
„Ég vissi að ef ég færi í meðferð og sýndi fram á að ég væri að snúa við blaðinu yrði það tekið til greina þegar ég þyrfti að fara inn. Ég var kominn með sex ára dóm í heildina,“ segir hann.
Atli fór á Hlaðgerðarkot og var þar í tvo og hálfan mánuð, í stað þriggja mánaða. Hann fór út og beint á barinn.
„Daginn sem ég hefði átt að útskrifast af Hlaðgerðarkoti kom löggan og sótti mig til að hefja afplánun,“ segir hann.
Hann var þurr í fangelsi. Fyrst var hann á Hólmsheiði og var mikið einn í klefanum sínum, einangraði sig og var hræddur en á Litla-Hrauni hitti hann félaga og opnaði sig meira og leið betur.
„Ég myndi alltaf velja Litla-Hraun fram yfir Sogn þó það sé opið fangelsi. Þú getur, jú, labbað út úr húsinu en það er bara geymsla. Það er miklu meira í boði og að gera á Hrauninu. Þar er vinna í boði til dæmis,“ segir hann.
Það sem bjargaði lífi Atla, að hans sögn, er Batahúsið. Tveimur árum eftir afplánun fór hann í meðferð eftir að hafa keyrt sig í kaf.
„Ég fékk inn í Batahúsið og fékk fljótlega tilgang. Það er mikið utanumhald og dagskrá. Allt sem ég þurfti. Ég lærði muninn á að vera þurr og vera edrú í bata.“