Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, viðurkennir að hann hafi lesið einhverjar fréttir þar sem hann og hans vinnubrögð eru gagnrýnd.
Postecoglou er talinn vera undir nokkurri pressu í dag eftir erfitt gengi en hans menn unnu þó Manchester United 4-3 í enska deildabikarnum í vikunni og eru komnir í undanúrslit.
Pressan magnaðist aftur í dag er Tottenham tapaði 6-3 gegn Liverpool á eigin heimavelli.
Sumir stuðningsmenn Tottenham telja að Postecoglou sé barnalegur þegar kemur að spilamennsku á velli en hann er gríðarlega sóknarsinnaður sem hefur kostað liðið í þónokkrum leikjum.
,,Það eru sumir hlutir þarna úti sem ég finn og les og ég get sagt það að þeir geta verið móðgandi í minn garð,“ sagði Ástralinn.
,,Ég er hérna í London með minn asnalega hreim og kannski tek ég hlutina ekki nógu alvarlega og kannski hlusta ég ekki nógu mikið. Það er allt í lagi.“
,,Ég elska lífið mitt hér og ég mun halda áfram að gera það sem ég er að gera.“