fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 22. desember 2024 19:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur birt tilkynningu á vefsíðu embættisins þar sem hún segir Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara ekki lengur uppfylla almenn hæfisskilyrði til að gegna embættinu. Hún geti því ekki úthlutað honum verkefnum né falið honum að vera staðgengil ríkissaksóknara.

Sigríður sendi erindi til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra síðastaliðið sumar þar sem hún lagði til að Helgi yrði settur úr embætti vegna ummæla hans í fjölmiðlum um innflytjendur í kjölfar frétta um brotamanninn Mohamad Kourani. Kourani var í sumar dæmdur í átta ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir ýmis ofbeldisbrot en hann hafði meðal annars haft í hótunum við Helga og fjölskyldu hans.

Ákvörðun Guðrúnar varðandi erindi ríkissaksóknara var að Helgi héldi embætti sínu. Helgi mætti til starfa síðastliðinn föstudag eftir sumafrí og veikindaleyfi, en hann er verkefnalaus.

Þó að Guðrún hafi ekki sett Helga úr embætti og niðurstaða hennar væri sú að hann ætti að halda því þá vísar Sigríður í umsögn Guðrúnar í tilkynningu sinni:

„Í bréfi dómsmálaráðherra til ríkissaksóknara, dags. 9. september sl., kemur fram að ráðherra geri ekki athugasemdir við þær efnislegu forsendur sem lágu til grundvallar áminningu sem ríkissaksóknari veitti Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara þann 25. ágúst 2022. Í áminningarbréfinu kom fram að háttsemi Helga Magnúsar utan starfs hans hafi verið ósæmileg og ósamrýmanleg starfinu. Hafi háttsemi hans varpað rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Í bréfinu var lögð á það áhersla að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi og að honum beri því að vera öðrum ákærendum fyrirmynd í allri sinni framgöngu.

Í áminningarbréfinu var vísað til þess að umfjöllun Helga Magnúsar, sem var tilefni áminningarinnar, væri til þess fallin að draga úr trausti til vararíkissaksóknara, embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins, en umfjöllunin beindist m.a. að brotaþolum í kynferðisbrotamálum, hælisleitendum og samkynhneigðum karlmönnum.“

Tilkynninguna má í heild lesa hér.

Úrskurður ráðherra um sín mál hafi verið endanlegur

„Sigríður Friðjónsdóttir getur hvorki skipað mig til starfa né leyst mig frá störfum né hefur eitt né neitt með mína stöðuveitingu að gera. Það er í höndum í ráðherra,“ segir Helgi í viðtali við DV.

Hann bendir á að úrskurður fráfarandi dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, í hans máli, sé „endanlegur úrskurður þar til bærs aðila um þessi sjónarmið sem hún er að fjalla um núna og henni finnst að gildi eitthvað annað um. Hún hefur ekki umboð til að taka slíkar ákvarðanir og hennar skoðun skiptir í rauninni engu máli, það er ráðherra sem á að ákveða það og hún hefur ákveðið að ég sé bær til að gegna mínu starfi og eigi að gera það áfram. Hún brást við ósk Sigríðar um að leysa mig frá störfum og hafnaði því bara. Það er ekki spurning um hvort Sigríði Friðjónsdóttur líki það eða ekki, það er ekki hluti af þessari meðferð.“

Helgi segir að niðurlag tilkynningar ríkissaksóknara sýna fáránleika málsins, en þar segir:

„Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 ber ríkissaksóknari ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa. Með vísan til framangreindrar lagaskyldu og þeirrar afstöðu ríkissaksóknara að Helgi Magnús fullnægi ekki lengur almennum hæfisskilyrðum til að gegna embætti vararíkissaksóknara telur ríkissaksóknari sér ekki heimilt að úthluta verkefnum sem varða meðferð ákæruvalds til Helga Magnúsar, hvað þá að fela honum þá ábyrgð að vera staðgengill ríkissaksóknara.“

Helgi bendir á að það sé ekki Sigríðar að fela honum ábyrgð vararíkissaksóknara heldur sé það lögbundið að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara. „Hún hefur ekkert með það að gera hvaða skilyrðum hann þarf að fullnægja til að fá slíka skipun í dag. Það er  bundið í lögum um meðferð sakamála hvaða skilyrðum vararíkissaksóknari, sem staðgengill ríkissaksóknara þarf að uppfylla. Hún felur mér ekki að vera hennar staðgengill , það er ráðherra sem felur mér það  með því að skipa mig í þetta embætti.“

Lokað fyrir aðgang að tölvukerfi

Aðspurður segir Helgi að ríkissaksóknari úthluti verkefnum og fari með verkstjórn og því geti Sigríður haldið verkefnum frá honum. „Ég þarf líka aðgang að tölvukerfinus sem hún hefur lokað fyrir þannig að þó að ég fengi verkefni gæti ég ekki komist í skjölin og gögnin sem eru á bak við þau.“

Helgi segist hafa mætt til starfa síðastliðinn föstudag eftir veikindaleyfi en þar sem hann hefur ekki aðgang að tölvukerfinu hafi hann í raun ekki geta unnið neina raunverulega vinnu.

„Ég var í rauninni bara að slæpast og fá svör við því að hún ætlaði standa við þessa yfirlýsingu, en hún sendi mér þennan texta í bréfi síðastliðinn mánudag.“

Helgi segir framgöngu ríkissaksóknara lykta af einelti. „Það er búið að ljúka þessari meðferð af lögbærum aðila, þeim sem skipar í stöðuna,  sem hefur úrskurðað að ég sé hæfur til að gegna henni. Hún fékk rétta og löglega meðferð á sinni beiðni, hún á bara að hlíta henni og ég á að fara að vinna og hún að sætta sig við það.“

„Þetta er farið að lykta af ómálefnanlegum sjónarmiðum þar sem hún er farin að lýsa andúð á mér með framkomu sinni. Ég lít bara svo á að þetta beri meiri keim af einelti en lögfræði. Hún er bundin af lögum og ef þetta er túlkun hennar á lögunum þá er það áhyggjuefni, það er áhyggjuefni ef ríkissaksóknari túlkar lögin svona frjálslega.“

Helgi segir að það eina sem hann geti gert í stöðunni sé að halda áfram að mæta í vinnuna þó að hann komist ekki í tölvukerfið til að rækja störf sín. Hann segist að öðru leyti ekki vita hvernig hann eigi að bregðast við þessari stöðu. Hann segist ekki trúa því að nýskipaður dómsmálaráðherra ætli að fara að þyrla þessu máli upp á ný enda sé það útkljáð af hálfu fráfarandi ráðherra.

„Hvað á ég að gera? Á ég að sitja heima á launum? Er það ásættanleg niðurstaða?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt