Klæðnaður nýju ráðherranna við stjórnarskiptin í gær var tekinn út á Smartlandi Mörtu Maríu Jónadóttur á mbl.is.
Í pistli sínum lýsir Marta yfir hrifningu á kjól sem Kristrún Frostadóttir, nýr forsætisráðherra, klæddist í gær. „Kristrún klæddi sig upp á í tilefni dagsins og skartaði 144.000 króna kjól úr 100% Viscose. Kjóllinn er frá ítalska tískumerkinu MSGM sem er vandað og vel saumað og býður oftar en ekki upp á klæðileg snið.“
Marta minnist einnig á klæðaburð Ölmu Möller og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur og gefur þeim góða umsögn.
En síðan er röðin komin að klæðnaði Ingu Sæland, sem tekur nú við embætti félags- og húsnæðismálaráðherra. Marta gagnrýnir sérstaklega skóval Ingu harðlega og lætur hana heyra það:
„Næsta verk Ingu Sæland er að fá sér stílista. Á meðfylgjandi ljósmyndum sést hún í svörtum skóm sem ná upp að ökkla og er í 40 den sokkabuxum við. Slíkir skór ganga ekki við pils eða kjóla og alls ekki þegar fólk tekur við ráðherraembætti. Þótt það sé napurt á Álftanesi eins og var í gær þá mega slíkar bomsur alls ekki sjást á tröppum Bessastaða. Fólk notar öklaskó við síðbuxur og helst við hversdagslegar athafnir. Betra hefði verið að klæðast hefðbundnum spariskóm með nokkurra sentímetra háum hæl. Skórnir frá Tamaris hefðu til dæmis átt vel, þægilegir en samt penir.
Fólk í ráðherraembættum þarf að klæða sig á viðeigandi hátt. Það má alveg minna á að starfinu fylgir vald og ákveðin virðing og þarf slíkt að endurspeglast í fatavali, förðun og hárgreiðslu.“