Fjöldamorðin í Magdeburg að kvöldi 20. desember höfðu á sér yfirbragð hryðjuverks öfgaíslamista, en sú aðferð að keyra bíl í gegnum mannmergð er þekkt hryðjuverkaaðferð á Vesturlöndum frá seinni árum. Sá sem grunaður er um árásina og er í haldi lögreglu, Taleb al-Abdulmohsen, er hins vegar yfirlýstur andstæðingur Íslams.
Taleb al-Abdulmohsen er fimmtugur að aldri og er frá Sádi-Arabíu. Hann flúði þaðan til Þýskalands árið 2006. Hann fékk alþjóðlega vernd í Þýskalandi árið 2016. Al-Abdulmohsen starfaði sem geðlæknir í Madgeburg. Hann hafði fyrir löngu gengið af íslamstrú og predikaði gegn henni. Varað hafði verið við skrifum hans á X, þar sem hann fór hörðum orðum um Íslam og sakaði Þýskaland um áform um að íslamsvæða Evrópu. Al-Abdulmohsen var jafnframt stuðnings maður AfD, hægri flokks sem beitir sér gegn innflytjendum.
Fjórar fullorðnar konur og eitt barn létust í árás Al-Abdulmohsen sem ók BMW í gegnum mannmergð á jólamarkaði í miðborg Madgeburg í Austur-Þýskalandi. Yfir 200 slösuðust, þar af 49 alvarlega. Mörgum mannslífum var bjargað á háskólasjúkrahúsinu í Madgeburg, þar sem Íslendingurinn Henning Busk starfar sem skurðlæknir.
Mótmæli gegn Íslam og innflytjendastefnu stjórnvalda hafa verið haldin í Magdeburg í kjölfar ódæðisins en staðreyndin er þó sú að Taleb al-Abdulmohsen var kunnur af öfgafullumskoðunum sínum í garð Íslams. Því hefur verið haldið fram að þær skoðanir hans hafi verið yfirvarp en ekkert hefur komið fram sem styður þær fullyrðingar.
BBC greinir frá því að Taleb al-Abdulmohsen hafi verið undir eftirliti lögreglu vegna öfgaskoðana sinna fyrir um ári síðan. Meðal annars fékk þýska lögreglan viðvaranir um hann frá stjórnvöldum í Sádí-Arabíu.