Roberto De Zerbi hefur ýtt undir þær sögusagnir að Paul Pogba sé á leið til Frakklands á nýjan leik.
Pogba er fyrrum franskur landsliðsmaður en hann er án félags í dag og má byrja að spila fótbolta í mars á næsta ári eftir að hafa tekið út bann fyrir steranotkun.
Marseille er helst orðað við þennan fyrrum leikmann Juventus og Manchester United og er það svo sannarlega möguleiki að sögn De Zerbi.
,,Ég vil bara vera með sigurvegara í mínu liði. Pogba hefur alltaf verið sigurvegari en ég hef ekki rætt hann við starfsfólkið mitt,“ sagði De Zerbi.
,,Við þurfum að finna leikmenn í janúar, leikmenn sem við þurfum. Ef sigurvegarar eru tilbúnir að koma þá reynum við að finna pláss fyrir þá.“
,,Ef þú getur fengið inn toppleikmenn þá er það alls ekki mitt vandamál heldur vandamál andstæðingana.“