Jose Mourinho, stjóri Fenerbahce, baunaði á eigin leikmenn í gær eftir leik sinna manna gegn Eyupspor í Tyrklandi.
Fenerbahce gerði 1-1 jafntefli við Eyupsor í frekar leiðinlegum knattspyrnuleik en leikið var á heimavelli þess síðarnefnda.
Fenerbahce missteig sig þarna í titilbaráttunni en liðið er fimm stigum á eftir Galatasaray sem á enn leik til góða.
,,Þetta var stórslys. Hversu mikið af fótbolta var spilað, hversu oft var leikurinn stöðvaður og hversu oft voru leikmennirnir í grasinu? Margoft,“ sagði Mourinho.
,,Gæðin í þessum leik voru virkilega léleg. Það voru mörg tæknileg mistök gerð, að mínu mati var þetta ekki vel spiluð viðureign.“
,,Ég tek ekki ábyrgð á gæðum þessa leiks en tek ábyrgð á mínu liði. Mitt lið spilaði illa. Það var erfitt að halda í boltann og koma honum fram völlinn.“
,,Þeir fengu tækifæri á að skora úr skyndisóknum því við töpuðum boltanum. Þetta var veikburða frammistaða frá mínu liði.“