Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður verkalýðsfélagsins Eflingar, svarar Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni SVEIT, sem sumir veitingamenn stofnuðu fyrir nokkrum árum síðan og hafa gert umdeildan kjarasamning við nýstofnað stéttarfélag sem kallast Virðing.
Efling hefur beint aðgerðum sínum gegn SVEIT og Virðingu og nýgerðum kjarasamningi þeirra á undanförnum vikum. Að mati Eflingar er um svokallað gult stéttarfélag að ræða. Það er stéttarfélag sem stjórnað sé af atvinnurekendum en ekki launafólki sjálfu.
Bent hefur verið á það að fólk tengt veitingamönnum situr í stjórn Virðingar. Til að mynda dóttir fyrrverandi formanns SVEIT, sem er eigandi veitingastaðarins ROK. Einnig eru eigenda og fjölskyldutengsl á milli núverandi formanns SVEIT og stjórnarkonu í Virðingu eins og DV hefur greint frá.
„Hér má hlusta á mann ljúga því að fólk sem vinnur á veitingahúsum þrái ekkert meira en að láta lækka laun sín og ráðast að veikinda-réttindum, orlofs-réttindum, réttindum barnshafandi kvenna, réttindum foreldra veikra barna, þrái að geta ekki leitað til stéttarfélags til að fá greiðslur úr sjúkrasjóði, þrái að láta mynda sig við öll störf og til viðbótar taka upp allt sem sagt er við vinnuna, og svo mætti áfram lengi telja,“ segir Sólveig Anna í færslu á samfélagsmiðlum í dag.
Er Sólveig Anna að bregðast við útvarpsviðtali sem Bylgjan tók við Sigurð G. Guðjónsson, lögmann SVEIT. Þar sagði hann meðal annars um mögulegar aðgerðir Eflingar gegn SVEIT og Virðingu.
„Þá munu þeir mæta okkur. Við munum beita réttarkerfinu fyrir okkur,“ sagði hann.
Aðspurður um tengsl stjórnarmanna í félögunum sagði Sigurður að það mætti hver sem er stofna verkalýðsfélag á Íslandi. Sagði hann félögin bæði vera lögleg. Sagðist hann ekki kannast við flótta úr félaginu eftir að málið komst í fréttirnar. En Efling hefur greint frá því að tæpur þriðjungur félaga hafi sagt sig úr SVEIT að undanförnu.
Óhætt er að segja að Sólveig Anna óttist ekki að takast á við Sigurð G. og félaga hans í SVEIT ef marka má færslu hennar.
„Við þessu aumkunarverða röfli í þessum vesalings manni og þeim sem hann vinnur fyrir, atvinnurekendum sem að hafa stofnað gervi-stéttarfélag til að hafa af fólki laun, segi ég einfaldlega: Bring it on.“