fbpx
Föstudagur 20.desember 2024
Fréttir

Hrafnhildur dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 20. desember 2024 11:20

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrafnhildur Bridde fasteignasali var þann 10. desember síðastliðinn sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fjárdrátt. Var hún sökuð um að hafa dregið sér 115.646.285 kr. af vörslufjárreikningi sem hún var með vegna starfa sinna sem löggiltur fasteignasali og eigandi fasteignasölunnar HB fasteignir slf.

Viðskiptavinir fasteignasölunnar lögðu umrædda fjármuni inn á vörslufjárreikning ákærðu vegna sölu á sjö tilgreindum fasteignum og misnotaði Hrafnhildur aðstöðu sína þar sem hún hafði ráðstöfunarheimild yfir vörslufjárreikningnum og nýtti fjármunina í þágu annarra og ótengdra viðskiptavina fasteignasölunnar, í þágu HB fasteigna slf. og eigin þágu sem leiddi til verulegrar fjártjónshættu fyrir viðskiptavinina.

Sjá einnig: Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Brot Hrafnhildar komust upp í kjölfar þess að viðskiptavinur hafði samband við Félag fasteignasala og kvartaði undan framferði Hrafnhildar.

Sjá einnig: Félag fasteignasala afhjúpaði fasteignasala sem er ákærður fyrir fjárdrátt – „Slík mál eru sem betur fer mjög sjaldgæf“

Hrafnhildur játaði skýlaust brot sín. Var það metið til refsimildunar, sem og það að hún hefur ekki áður verið fundin sek um refsiverðan verknað. Hins vegar segir í dómnum:

„Á hinn bóginn verður til þess litið við ákvörðun refsingar að brot sín framdi ákærða í starfi sem löggiltur fasteignasali, með því að ráðstafa söluandvirði fasteigna sem hún annaðist sölu á með þeim hætti sem í ákæru greinir, í stað þess að geyma það á sérstökum fjárvörslureikningi, líkt og henni var skylt að gera, og ráðstafa söluandvirðinu í þágu hagsmuna kaupenda og seljenda þeirra fasteigna sem um ræddi hverju sinni. Með því misnotaði ákærða stöðu sína sem löggiltur fasteignasali og braut gegn skyldum sínum gagnvart seljendum og kaupendum fasteigna, sem máttu treysta því að meðferð ákærðu á fjármunum þeirra væri í samræmi við lög. Þá var um verulega fjármuni að ræða og endurtekin brot. Verður sömuleiðis að telja að umtalsverð fjártjónshætta hafi hlotist af brotum ákærðu og að vilji hennar til brota hafi verið styrkur og einbeittur.“

Var ofannefnt metið til refsiþyngingar.

Niðurstaðan var að Hrafnhildur Bridde er dæmd í tveggja ára fangelsi. Dóminn má sjá hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt