fbpx
Föstudagur 20.desember 2024
Fókus

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Fókus
Fimmtudaginn 19. desember 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Sydney Sweeney er kyntákn Hollywood í dag. Hún hefur ekki veigrað sér við því að leggja áherslu á kynþokka sinn enda líður henni vel í eigin skinni. Margir kalla hana nútíma Marilyn Monroe. Einhverjum þykir hún þó skulda heiminum að vera alltaf þokkafull og veigra sér ekki við að líkamssmána hana ef það birtast myndir af henni þar sem hún er ekki förðuð, ekki búin að stilla sér upp fyrir myndatöku eða eins og nú – þegar hún er vöðvastælt að undirbúa sig undir krefjandi hlutverk.

Paparazza-ljósmyndari tók myndir af henni úr launsátri á dögunum fyrir utan heimili hennar í Flórída. Myndirnar voru birtar á netinu og kröfuhörð nettröll hreinlega misstu sig í niðurrifinu. Sweeney hefur undanfarið verið í umfangsmiklu líkamsræktarátaki til að undirbúa sig fyrir hlutverk í kvikmynd sem fjallar um líf hnefaleikakonunnar Christy Martin. Christy er sú kona sem hefur notið mestrar velgengni í bandarískum hnefaleikum. Hún var brautryðjandi fyrir konur í íþróttinni og braut hvert glerþakið á eftir öðru. Á sama tíma gekk á ýmsu í einkalífi hennar en hún giftist þjálfara sínum, karlmanni, enda var hún þá ekki komin út úr skápnum. Eiginmaður hennar var 25 árum eldri en hún. Hann gerði hana háða fíkniefnum og beitti hana hrottalegu heimilisofbeldi. Eftir verstu árásina var hún nær dauða en lífi. Hún var eins þolandi barnaníðs í æsku.

Sweeney ætlar sér að gera þessari merku konu góð skil í túlkun sinni og hefur því lagt allt undir í ræktinni svo hún geti leikið afreksíþróttakonuna með sannfærandi hætti. Fyrir vikið má Sweeney nú þola háðsglósur og gróft níð í netheimum, einkum frá karlmönnum sem telja sig hafa einhverja heimtu á kynþokka hennar.

Sweeney tók saman nokkrar rætnar athugasemdir sem hafa fallið um útlit hennar undanfarið. Síðan birti hún myndbrot og myndir af sér í ræktinni til að sýna fólki að hún sé ekki af baki dottin og finnst hún grjóthörð og glæsileg, sama hvað aðrir segja.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Sydney Sweeney (@sydney_sweeney)

Líkami konu verður almannaeign

Blaðakonan Zeynab Mohamed skrifar hjá Face Value að það sé ótrúlegt að fylgjast með umræðunni um Sweeney. Hún virðist ekki mega sjást án þess að uppfylla kröfur karlmanna um lýtalausan kynþokka. Þegar myndir birtast af Sweeney án farða saki karlmenn hana um blekkingar. Aðrir kalla hana feita og ljóta. Einn hafi gengið svo langt að gefa handahrikum hennar falleinkunn.

„Líkami konu verður almannaeign, útlit hennar er krufið til mergjar og mannleiki hennar er vopnvæddur gegn henni. Vandinn er ekki að Sweeney hafi litið út fyrir að vera ófullkomin – sem hún gerði ekki. Vandinn er að samfélagið er staðráðið í því að finna galla, alveg sama hvað.“

Blaðakonan rekur að Sweeney sé ein eftirsóttasta leikkonan í dag og hafi hlotið mikið lof fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Euphoria og The White Lotus. Engu að síður sé aðeins talað um útlit hennar. Þegar hún birti uppstilltar myndir á Instagram sé hún sökuð um að vera gervimanneskja. Þegar paparazzarnir taka myndir af henni úr launsátri sé hún svo gagnrýnd fyrir að vera of raunveruleg. Þessi hræsni tryggi að engin kona geti staðið undir kröfunum. Karlkyns leikarar þurfi ekki að þola sömu gagnrýni.

Dauðasynd að slaka á

Blaðakonan Helen Coffey hjá Independent skrifaði líka grein um málið. Nú sé leikkonan höfð að háði og spotti bara fyrir að hafa vogað sér að labba um á sundfötunum, á sínu eigin heimili og án þess að gera sér grein fyrir að ljósmyndari væri að mynda hana. „Hún hélt líklega, eðlilega, að hún mætti slaka á og vera bara til í smá stund í staðinn fyrir að ganga í augun á karlmönnum“

Karlmenn hafi kallað hana meðalkonu (e. mid), feita og svo sakað hana um að þykjast vera falleg. Þannig hafi Sweeney platað karlmenn til að slefa yfir henni með því að voga sér að vera með varalit, í fleygnum fötum og með blásið hár. Hún hafi logið að heiminum að hún væri fullkomin en sé í raun gölluð mannvera, jafnvel bara venjuleg – sem er víst dauðasynd.

Coffey tók fram að sjálf hafi hún séð myndirnar og hugsað að jafnvel ómáluð og afslöppuð á eigin heimili væri Sweeney stórglæsileg. Mönnum hafi þó verið gróflega misboðið. „Engin okkar verður nokkurn tímann nógu góð til að fullnægja karlmönnum sem hata konur – því þeir vilja sjá okkur mistakast. Og þegar við fremjum þá dauðasynd að vera raunverulegar og mennskar frekar en að vera hlutur til að dást að, tja þá eru það verstu mistök í heimi.“

Blaðakona Salon, Nardos Hailey, segir að árásir á borð við þær sem Sweeney má nú þola séu tilraun karlmanna til að stjórna líkömum kvenna. Nettröll sem neiti að sætta sig við að líkami Sweeney taki breytingum séu að neita henni um sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama.

Aðrir hafa velt fyrir sér hvort karlmenn hafi fallið of djúpt í holi algríma samfélagsmiðla. Þeir líti nú á konur sem óvininn og hata konur sem uppfylla ekki kröfur þeirra um fegurð. Líklega séu flestir þessir menn einmana og í engum samskiptum við raunverulegar konur. Þar með haldi þeir að það sé í fínu lagi að ráðast á konur á netinu.

„Þeim hefur verið kennt að konur séu óvinurinn og að ástarsambönd séu valdatafl þegar í raun og veru er verið að ræna þá þeirri berskjöldun og gleði sem fylgir nándinni. Í staðinn fyrir ást og viðurkenningu eru þeir að tísta á netinu um að Sydney Sweeney sé miðlungs.“

Frétt Yahoo!Life

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Í gær

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Í gær

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin
Fókus
Í gær

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stór breyting á söngvaranum – Hefur misst 54 kíló og er hvergi nær hættur

Stór breyting á söngvaranum – Hefur misst 54 kíló og er hvergi nær hættur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um verðlagningu á vinsælu jólaskrauti – „Fólk er fífl ef það kaupir það“

Hart tekist á um verðlagningu á vinsælu jólaskrauti – „Fólk er fífl ef það kaupir það“