Trinity vann gullverðlaunin með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í París í sumar, en þessi 22 ára framherji hefur leikið lykilhlutverk með liðinu og er af mörgum talin ein besta knattspyrnukona heims.
Samband hennar við föður hennar, hinn litríka Dennis Rodman, hefur ekki alltaf verið dans á rósum eins og hún lýsir í viðtalinu.
„Ég lít ekki á hann sem pabba. Við erum blóðskyld en ekkert annað. Það er sársaukafullt að heyra röddina hans,“ segir hún í viðtalinu sem CNN vísar til.
Dennis Rodman lék í fjölda ára í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta þar sem hann varð meðal annars meistari með Chicago Bulls. Talið er að hann hafi þénað tæplega 30 milljónir dollara, á fimmta milljarð króna, á ferli sínum en Trinity segir að hann hafi ekki veitt henni mikinn stuðning eftir að hann skildi við móður hennar, Michelle Moyer, árið 2012.
„Við áttum Ford Expedition og við eiginlega bjuggum í honum um tíma. Við reyndum að búa hjá honum en hann var með partý allan sólarhringinn og alls konar konur sem komu í heimsókn til hans. Hann elskar sviðsljósið og myndavélarnar.“
Hún segir að áður en foreldrar hennar skildu hafi hann hjálpað börnum sínum fjárhagslega. „Við gátum lifað góðu lífi en eftir skilnaðinn var það bara: Fokkið ykkur. Hann er einstaklega sjálfselskur einstaklingur. Ég held að það hafi alltaf allt snúist um hann.“
Trinity var aðeins 18 ára gömul þegar hún var valin í nýliðavali bandarísku NWSL-deildarinnar í fótbolta og mætti Rodman óvænt á leik hjá henni í undanúrslitum deildarinnar ‘i n’ovember 2021. Þá hafði hann ekki talað við hana mánuðum saman.
„Ég var svo reið og byrjaði að gráta á vellinum. Mér fannst hann hafa tekið þessa gleðistund frá mér,“ segir hún en myndir náðust af Trinity faðma föður sinn eftir leikinn. Hún segir að það hafi virst vera falleg stund á milli föður og dóttur en staðreyndin var önnur.
„Eftir þetta heyrði ég ekki í honum mjög lengi og sá hann ekki fyrr en bara á þessu ári,“ segir Trinity og bætir við að þetta hafi alltaf verið sama sagan. Hann láti sjá sig endrum og eins og hún beri þá von í brjósti að samskiptin verði góð á nýjan leik. Svo láti hann sig hverfa og láti ekkert í sér heyra mánuðum saman.