Hún ræðir þetta nánar hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér, einnig má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
TW: Umræða um sjálfsskaða
„Ég byrjaði að stunda mikinn sjálfsskaða þegar ég var krakki. Ég byrjaði rólega, þetta var eitthvað sem ég… þetta var eitthvað til að sleppa úr frímínútum og þá tók ég stein og gerði sár. Þá fékk ég allt í einu að fara inn og það var hugsað um mig og hlúað að mér. Ég hef alltaf verið svo lokuð tilfinningalega séð, að ef það er eitthvað að krauma í mér þá er ég alltaf, ég get ekki leitað til einhvers. Það er erfitt að vera alltaf ein, að þjást í friði,“ segir Eygló.
„Ég kunni ekki að sækjast eftir hjálpinni, þetta var mín leið að fá þessa aðhlynningu og umönnun án þess að þurfa að segja: „Hey, mér líður illa, hjálp.““
Eygló segir að til að byrja með hafi þetta verið litlar skrámur en með aldrinum varð þetta sífellt alvarlegra og endaði hún oft með mörg spor víðs vegar um líkamann. Eitt skipti skar hún sig svo illa á lærinu að það þurfti að sauma 93 spor.
„Svo fór þetta að verða verra og ég var hætt að geta falið þetta. Þetta fór að verða slæmt. Alveg í það að mamma greyið þurfti að vera að hlúa að þessu og þrífa þetta og setja sárabindi, yfir í að ég þurfti bara að fá sauma. Það var rosa erfitt, ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra. Það var pínu rush við það, svo mikið adrenalín sem kemur þegar maður er að þessu. Þetta var orðið svolítið slæmt, en mér leið bara svo sjúklega illa. Ég hef alltaf verið mjög reiður krakki, rosa brjáluð í skapinu, reið því ég var með allt inn í mér, ég var að springa og þegar ég sprakk fór ég í þetta.“
Eygló útskýrir vítahringinn sem hún var föst í mörg ár. „Ég fékk alltaf þessa miklu aðhlynningu […] Ég sóttist svo mikið eftir því að fá þetta, þessi faðmlög, þessa aðhlynningu því mér vantaði það. Því mér leið svo ógeðslega illa, en ég kunni ekki að biðja um þetta og þetta var mín leið. Svo eftir á fann ég, mér byrjaði að líða betur þar til það byggðist eitthvað nýtt og ég þorði ekki að segja neitt, þar til ég sprakk aftur,“ segir hún.
Eygló segir að hún hafi upplifað mikla skömm í kringum þetta og ekki vitað hvernig hún ætti að tala við unnusta sinn, Sævar, þegar þau kynntust.
„Þetta er rosa fráhrindandi fyrir fólk, fólk hugsar náttúrulega með sér: „Hvað er það sem fær manneskju til að gera svona við sjálfa sig?“ Fólki finnst þetta náttúrulega bilun.“
Eygló segist skilja þetta viðhorf en hvetur fólk til að hugsa hversu illa viðkomandi þarf að líða til að skaða sig á þennan hátt.
„Ég var stressuð að segja honum […] honum fannst vont að sjá að ég væri að gera þetta og liði svona illa, en hann lokaði ekki á mig en þetta hjálpaði mér, því ég var svo rosalega ástfangin. Mér fór að líða betur og það hjálpaði mér að hætta þessu. Ég varð líka ólétt svo snemma, hann losnaði úr fangelsi í júní og ég var ólétt í nóvember og gat ekkert verið að gera eitthvað svona.“
Eygló hefur verið í sjálfsvinnu síðan og segir það ganga vel. „Mér líður mjög vel í dag,“ segir hún.
Hún ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Við vörum viðkvæma við lýsingum. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgstu með Eygló á Instagram og hlustaðu á tónlistina hennar á Spotify.