Frjálslyndi flokkurinn í Svíþjóð, Liberalerna, vilja banna innflutning á vörum frá ódýrum kínverskum netverslunum á borð við Temu og Shein. Þess í stað vill flokkurinn styrkja hringrásarhagkerfið.
Aftonbladet greinir frá þessu.
Frjálslyndi flokkurinn er hægri sinnaður flokkur sem situr í ríkisstjórn Ulf Kristersson. Hann er því langt frá því að vera áhrifalaus í málinu.
„Við viljum styrkja hringrásarhagkerfið og verslun með notuð föt og draga úr neyslu á ódýrum tískufatnaði sem er að aukast í Svíþjóð og er ekki hentug fyrir land með meðvituðum neytendum sem er umhugað um mannréttindi og loftslagið,“ sagði Romina Pourmokhtari, umhverfis- og loftslagsráðherra.
Hefur Frjálslyndi flokkurinn lagt til fjórar leiðir til að breyta um kúrs í þessum efnum. Ein leiðin er að banna innflutning frá verslunum á borð við Temu og Shein. Önnur að lækka virðisaukaskatt á notaðar vörur. Þriðja er bann á svokölluð eilífðarefni, eða PFAS efni, í fatnaði, en þau eru talin mjög skaðlega heilsu og umhverfi og tærast ekki í náttúrunni. Fjórða að gerð verði könnun á loftslagsáhrifum fatnaðar.