Íbúar við Lokastíg og Skólavörðustíg í miðborg Reykjavíkur eru ósáttir við fyrirhuguð þéttingaráform með nýbyggingu á horni Njarðargötu og Lokastígs. Tillögu um að samþykkja áformin að nýju var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær og í kjölfarið vísað til borgarráðs. Með fundargerð fundarins fylgja athugasemdir íbúanna sem segja að byggingaráformin muni valda því að birta og útsýni í húsum þeirra skerðist stórlega, að þeir verði fyrir enn meira ónæði en þeir verði nú þegar fyrir vegna ýmis konar starfsemi í nágrenninu og að umferð og skortur á bílastæðum aukist enn frekar. Óttast þeir því greinilega að lenda í því sama og íbúar í fjölbýlishúsi í Árskógum í Breiðholti sem búa við afar skert útsýni og birtu eftir að vöruhús var reist þétt upp við húsið en fjallað hefur verið mikið um það mál í fjölmiðlum undanfarið.
Áformin í miðborginni snúast um heimild til að reisa þriggja hæða fjölbýlishús á lóðinni við Njarðargötu 61 en sú lóð er á horni götunnar og Lokastígs. Næsta hús við síðarnefndu götuna er mjög nálægt lóðinni og beint fyrir aftan hana er fjölbýlishús við Skólavörðustíg. Byggingin var upphaflega heimiluð með breytingu á deiliskipulagi í vor en nágrannar kærðu þá ákvörðun á þeim grundvelli að þeir hefðu aldrei verið upplýstir um hana.
Reykjavíkurborg viðurkenndi í október síðastliðnum að mistök hefðu verið gerð í grenndarkynningu og felldi deiliskipulagsbreytinguna sem heimilaði bygginguna úr gildi.
Reykjavíkurborg viðurkennir mistök og endurskoðar umdeilda ákvörðun
Tillagan var grenndarkynnt upp á nýtt með þeirri breytingu að lengja hið fyrirhugaða fjölbýlishús um 2 metra til suðvesturs en eins og áður segir á það að vera þriggja hæða og í því eiga að vera að hámarki 8 íbúðir. Byggingarmagn á að aukast um 95 fermetra. Mjög ítarleg greinargerð vegna málsins fylgir með fundargerð fundar umhverfis- og skipulagsráðs. Þar á meðal eru umsagnir skipulagsfulltrúa borgarinnar og Minjastofnunar Íslands sem leggja til að breytingin verði samþykkt og byggingin heimiluð. Með vísan til fyrri umsagnarinnar samþykkti umhverfis- og skipulagsráð breytinguna og vísaði málinu til borgarráðs.
Á umræddri lóð er meðal annars geymsluskúr en hann verður rifinn gangi byggingaráformin eftir. Snúast byggingaráformin að uppistöðu um að breyta húsinu sem nú stendur við Njarðargötu 61 og breyta því í þetta 3 hæða fjölbýlishús og stækka það og lengja. Í umsögn Minjastofnunar segir að áformin muni styrkja annars brotakennda götumynd en þar sem húsið er friðað leggur stofnunin áherslu á að götuhlið hússins haldi sér með óbreyttri gluggaskipan og að gluggasmíði taki mið af upphaflegri gerð. Í umsögninni er tíundað ýmislegt annað sem stofnunin leggur áherslu á að gert verði á meðan framkvæmdunum standi og vill hún fá endanlega aðaluppdrætti senda til yfirferðar og samþykktar.
Í greinargerðinni vegna málsins, sem fylgir fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs, fylgja athugasemdir íbúa sem búa, við Lokastíg og Skólavörðustíg, í næstu húsum við lóðina. Þeir lýsa áhyggjum af skertri birtu og útsýni, auknu ónæði og vaxandi umferðar- og bílastæðavanda.
Íbúi sem býr í húsi við Lokastíg sem er við hlið lóðarinnar segir í sinni athugasemd að lífsgæði hans muni versna í ljósi þess að byggingin nýja verði hærri en húsið:
„Það mun dimma mikið í íbúðinni minni.“
Íbúinn segir að gluggi í svefnherbergi hans verði aðeins um 7-8 metra frá nýju byggingunni. Hann gerir einnig athugasemd við að fullyrt sé að skuggavarp á hús hans verði það sama á hádegi á sumarsólstöðum og á hádegi á haustjafndægri, sem standist ekki. Einnig muni rifsber sem hann rækti í garði sínum rýrna verulega þar sem kólna muni í garðinum.
Íbúi í húsinu hinum meginn við götuna segir að útsýni frá heimili hans verði skert með byggingunni og ekki sé bætandi á þau umferðar- og bílastæðavandamál sem nú þegar séu til staðar. Hann vísar einnig til ónæðis sem hann verði nú þegar fyrir frá veitingastað og ferðamannahóteli sem séu sitt hvoru meginn við hans hús.
Loks gera eigendur og íbúar íbúða í fjölbýlishúsi við Skólavörðustíg, sem er beint fyrir aftan umrædda lóð, athugasemd við að óhjákvæmilega verði mikil hljóðmengun og önnur óþægindi á framkvæmdatímanum. Segja íbúarnir að þetta sé þeim mun verra þar sem þeir vinni ýmist á nóttunni eða heima við á daginn. Hið fyrirhugaða hús muni skerða útsýni þeirra:
„Tekur frá okkur síðdegissólina sem rýrir verðmæti fasteigna okkar.“
Í andsvörum skipulagsfulltrúa borgarinnar við athugasemdum íbúanna segir að ábendingar um að skuggavarpsmyndir séu rangar hafi verið réttmætar. Þær hafi verið leiðréttar og athugasemdafresturinn lengdur. Varðandi áhyggjur íbúans í húsinu við hlið lóðarinnar af birtuskilyrðum segir skipulagsfulltrúi að þau muni skána þegar geymsluskúrinn á lóðinni verði fjarlægður og lengra verði þá milli þess húss og nýbyggingarinnar.
Skipulagsfulltrúinn tekur ekki afstöðu til ónæðis af völdum framkvæmdanna og vísar til jákvæðrar umsagnar Minjastofnunar þegar kemur að athugasemdum um skert útsýni.