Víkingur heimsækir LASK frá Austurríki í lokaleik liðanna í deildarkeppni Sambansdeildarinnar í kvöld. Íslenska liðið er í góðri stöðu upp á að fara áfram.
Víkingur hefur náð frábærum árangri í keppninni til þessa og er með 7 stig. Það eru meiri líkur en minni á að það dugi liðinu áfram í útsláttarkeppnina eftir áramót en stig í kvöld myndi gulltryggja það. Markatala gæti líka skipt máli.
LASK er aðeins með 2 stig í þriðja neðsta sæti Sambandsdeildarinnar og er þegar úr leik. Það er því spurning hvernig liðið mætir til leiks í þessum síðasta leik sínum fyrir jólafrí.
Veðbankar eru ekki með Víkingi í liði fyrir kvöldið en telja sigur eða jafntefli þó langt því frá ómöguleg úrslit. Stuðull á sigur Víkings á Lengjunni er til að mynda 3,94 og stuðull á jafntefli 3,46. Stuðull á sigur LASK er 1,65 þrátt fyrir dapurt gengi þeirra það sem af er.
Leikurinn fer sem fyrr segir fram í Austurríki og hefst hann klukkan 20 á íslenskum tíma.