Samkvæmt helstu miðlum er nokkuð ljóst að Ruben Amorim, stjóri Manchester United, er á höttunum eftir vinstri bakverði í janúarglugganum.
Luke Shaw verður frá í einhvern tíma og þá vill Amorim nýjan leikmann til að spila vængbakvarðastöðuna í kerfinu sínu.
Nuno Mendes hjá Paris Saint-Germain, Rayan Ait-Nouri hjá Wolves, Ben Chilwell hjá Chelsea, Alphonso Davies hjá Bayern Munchen, Theo Hernandez hjá AC Milan og hinn ungi Alvaro Carreras hjá Benfica hafa allir komið til tals og eru nefndir í fjölmiðlum í dag.
United þarf þó að losa um fjármuni áður en nýir leikmenn mæta á svæðið. Einfaldasta leiðin til þess í dag væri sennilega sú að selja Marcus Rashford, sem er úti í kuldanum hjá Amorim og er opinn fyrir því að fara.
Ef ekki gæti Amorim þurft að sætta sig við að bíða fram á næsta sumar með að fá nýjan vinstri bakvörð.